Bitcoin hríðfellur eftir tilkynningu Musks

Elon Musk segir að Tesla muni ekki lengur taka við …
Elon Musk segir að Tesla muni ekki lengur taka við Bitcoin við sölu á bifreiðum fyrirtækisins og segir að það sé vegna umhverfisverndarsjónarmiða. AFP

Forstjóri og stofnandi Tesla, Elon Musk, hefur gefið það út að bílaframleiðandinn muni hætta að taka við greiðslum fyrir bíla í formi Bitcoin, vegna þess hve mikið jarðefnaeldsneyti er talið nýtast við öflun rafmyntarinnar. Tesla er enda einn stærsti framleiðandi rafbíla á heimsvísu.

Vegna þessa hríðféll virði Bitcoin, um allt að 5% eins og segir í frétt CNBC, á fyrstu mínútunum eftir að Musk tilkynnti um málið á twittersíðu sinni.

Musk enn áhugasamur um rafmyntir

Tesla hefur hingað til keypt Bitcoin fyrir um 1,5 milljarða bandaríkjadollara. Um það tilkynnti fyrirtækið í febrúar og sagði sömuleiðis að mögulega yrði fjárfest meira í náinni framtíð, einnig í öðrum rafmyntum. Það var þá sem tilkynnt var um að hægt væri að kaupa bíla frá Tesla með Bitcoin og hækkaði virði rafmyntarinnar, rétt eins og annarra rafmynta á borð við Dogecoin, uppúr öllu valdi.

Musk tilkynnti einnig í dag að Tesla myndi þó halda eftir því Bitcoin sem fyrirtækið á, í stað þess að selja það þegar í stað, og að Tesla myndi nú horfa til annarra rafmynta sem ekki eru talin bera með sér eins stórt kolefnisfótspor.

Margir fjárfestar og sum fyrirtæki, eins og Tesla, hafa undanfarið árið beint sjónum sínum í auknum mæli að rafmyntum, meðal annars í þeim tilgangi að komast hjá áhrifum verðbólgu, nú þegar seðlabankar flestra ríkja heimsins prenta seðla til þess að reyna að minnka áhrifin af kórónuveirufaraldrinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka