Neyðarástandi lýst í Lod

Ísrael hefur lýst yfir neyðarástandi í borginni Lod eftir óeirðir í borginni. Átökin á milli Ísraela og Palestínumanna hafa stigmagnast undanfarna daga.

Kveikt var í bílum í nótt og feðgin, bæði ísraelskir arabar, létust þegar eldflaug sem skotið var frá Gaza hæfði bifreið þeirra. Hundruðum eldflauga var skotið að Ísrael frá Gaza í gærkvöldi og í nótt og Ísraelsher gerði harða hríð að Gaza úr lofti.

Að minnsta kosti 40 eru látnir eftir átökin undanfarna daga en þau eru þau verstu í einhver ár.

BBC greinir frá því að Ísraelsher segist beina spjótum sínum að hernaðarlega mikilvægum stöðum á Gaza og með þessu sé verið að svara eldflaugaárásum á Jerúsalem og fleiri staði. Yfir eitt þúsund eldflaugum hefur verið skotið að Suður- og Mið-Ísrael af palestínsku Hamas-samtökunum frá því á mánudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka