Faraldur samsæriskenninga nær fótfestu í Evrópu

Mótmælendur mótmæla Covid-19-takmörkunum í Sviss.
Mótmælendur mótmæla Covid-19-takmörkunum í Sviss. AFP

„Þetta er ekki veira, þetta er tæki til að beita völdum,“ segir Monique Lustig í Hollandi. Í Þýskalandi heldur Hellmuth Mandel því fram að kórónuveiran sé „saga sem var fundin upp af alþjóðlegri fjármálamafíu“. „Og hvað ef þetta er allt bara bíómynd?“ spyr Christope Charret í Frakklandi.

Öll halda þau því fram að þau séu að berjast gegn því að missa stjórn á huga sínum til valdastétta sem búið hafi til faraldur kórónuveirunnar.

Samsæriskenningar, knúnar áfram af heimsfaraldrinum, hafa nú náð fótfestu í Evrópu sem aldrei fyrr og sækja þær innblástur sinn til bandarísku samtakanna QAnon.

Mótmæli í Berlín skipulögð af hópum sem neita að Covid-19 …
Mótmæli í Berlín skipulögð af hópum sem neita að Covid-19 sé til. AFP

Finna aðrar leiðir

Samfélagsmiðlareikningum sem styðja samsæriskenningarnar hefur verið eytt af Twitter og Youtube eftir að hafa brotið reglur samfélagsmiðlarisanna. En stuðningsmenn kenninganna hafa fundið sér aðrar leiðir til að birta upplýsingar, sem eru aðallega rangar, sem þeir halda fram að fjölmiðlar haldi leyndum frá almenningi.

Þá eru um það bil 30.000 áskrifendur skilaboðaforritsins Telegram sem fylgja svonefndum DeQodeurs í Frakklandi, meira en 100.000 fylgja þýskum samsæriskenningarmönnum Attila Hildmann og Xavier Naidoo, og tæplega 150.000 fylgja Bretanum Charlie Ward, sem býður áskrifendum nánast stöðugt flæði af kynningarmyndböndum Donalds Trumps.

Hafa fjölbreyttan bakgrunn

Fréttamenn AFP-fréttastofunnar skoðuðu mánuðum saman umhverfi samsæriskenninga í Evrópu og fundu samsæriskenningar á meðal fylgismanna QAnon, kirkjurækinna mótmælenda, andstæðinga bólusetninga, popúlista, atvinnulausra og jafnvel lækna. Franskur leyniþjónustumaður benti á, í samtali við AFP-fréttastofuna, að fólk sem ætti hlut að máli hefði í vaxandi mæli fjölbreyttan bakgrunn.

Fylgjendur samsæriskenninga mynda ólíka blöndu af hreyfingum og skoðunum en vaxandi vald þeirra veldur leyniþjónustum Vestur-Evrópu miklum áhyggjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert