Auðkýfingurinn Bill Gates er nú undir kastljósi fjölmiðla eftir að ljóstrað var upp um að skilnað hans og Melindu, eiginkonu hans til nærri þriggja áratuga, mætti rekja til ástarsambands hans við einn af starfsmönnum Microsoft.
Vefmiðillinn Daily Mail greindi frá því í gær að Gates hefði sóst eftir vináttu milljarðamæringsins og barnaníðingsins Jeffreys Epstein árið 2011, eftir að ljóst var að hann hafði fengið á sig dóm fyrir kynferðisbrot gagnvart barni.
Gates hafi bundið vonir við að Epstein gæti hjálpað sér að fá friðarverðlaun Nóbels, en þeir tveir munu hafa fundað með formanni norsku verðlaunanefndarinnar árið 2013 heima hjá Thorbirni Jagland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.
Ekki varð hins vegar af verðlaunaveitingunni, og mun Gates hafa slitið samskipti sín við Epstein skömmu síðar að ráði Melindu. Talsmaður Gates segir að hann hafi einungis hitt Epstein á árunum 2011-2013 til þess að leita fjármagns til góðgerðarmála og sjái eftir því.
Talsmaður Bills Gates neitar því að hann hafi sóst eftir að fá friðarverðlaun Nóbels. Þá segir talsmaður Gates að hann hafi aldrei sótt teiti á vegum Epsteins sem löngum eru orðin fræg fyrir að hafa tengst kynferðisbrotum hans.