Hagnaður af Covid-19-bóluefnum hefur hjálpað að minnsta kosti níu manns að verða milljarðamæringar, að sögn Samtaka um bólusetningu almennings. Samtökin hvöttu til þess í dag að „einokun“ tækninnar á bak við bóluefnaframleiðslu verði hætt. AFP greinir frá.
„Þessir milljarðamæringar hafa samanlagt safnað auði upp á 19,3 milljarða bandaríkjadala [eða því sem nemur um 2,3 billjónum íslenskra króna]. Sá auður dugar til þess að bólusetja allt fólk í lágtekjulöndum 1,3 sinnum,“ sögðu samtökin í yfirlýsingu.
Samtökin eru bandalag aðgerðasinna sem berjast fyrir því að afnema eignarrétt og einkaleyfi á bóluefnum. Þeir byggja yfirlýsingu sína á gögnum Forbes Rich List.
„Þessir milljarðamæringar eru andlit hins mikla gróða sem mörg lyfjafyrirtæki skapa sér á einokunarvaldinu sem þau hafa yfir þessum bóluefnum,“ sagði Anna Marriott hjá góðgerðarsamtökunum Oxfam, sem eru hluti af bandalaginu.
Auk hinna nýju stórríku hafa átta manns sem voru milljarðamæringar fyrir Covid-19 auðgast um 32,2 milljarða bandaríkjadala, eða því sem nemur tæpum fjórum billjónum íslenskra króna, þökk sé bólusetningu gegn Covid-19.
Efstir á lista nýrra milljarðamæringa sem geta rakið auð sinn til bólusetningarinnar eru Stephane Bancel, forstjóri Moderna, og Ugur Sahin, forstjóri BioNTech.
Þrír aðrir nýmilljónamæringar eru meðstofnendur kínverska bóluefnafyrirtækisins CanSino Biologics.