Svíþjóð hefur tekið fram úr Ítalíu og Austur-Evrópulöndum og trónir nú á toppi Evrópu þegar kemur að fjölda dauðsfalla af völdum skotárása. Flestar skotárásirnar má rekja til glæpagengja þar í landi.
Á meðan morðum með skotvopnum hefur farið fækkandi í Evrópu frá upphafi þessarar aldar, hefur þróunin verið í gagnstæða átt hjá Svíum. Svíþjóð er í algerri sérstöðu þegar kemur að þessari auknu tíðni en ekki er að finna sambærilega stöðu annars staðar í Evrópu.
Í skýrslu sem sænska innanríkisráðuneytið tók saman segir að skotárásir valdi dauða fjögurra einstaklinga af hverri milljón íbúa Svíþjóðar árlega. Til samanburðar er meðaltalið í Evrópu 1,6 á hverja milljón.
Sænsk stjórnvöld og lögregluyfirvöld hafa viðrað áhyggjur sínar af þróuninni síðustu ár, en sjáanleg aukning tók fyrst að gera vart við sig árið 2013. Á árunum 2011 til 2019 tvöfaldaðist fjöldi skotárása og eu þær nú orsök um 40% ofbeldistengdra dauðsfalla.
Talið er að aukninguna megi rekja til þess umhverfis sem hefur myndast í þeim hverfum sem eiga undir högg að sækja. Fleiri glæpasamtök hafa litið dagsins ljós og í undirheimunum hefur þróast nýtt hegðunarmynstur þar sem gengin hika ekki lengur við að grípa til grimmilegs ofbeldis og beitingar skotvopna. Engin einföld skýring er þó á því hvers vegna þessi þróun einskorðast svo mjög við Svíþjóð.
Í Svíþjóð búa 10,3 milljónir manna. Skráð voru 360 tilfelli tengd skotvopnum, þar af 47 dauðsföll en 117 slösuðust. Lögregluyfirvöld í Svíþjóð segja þessar tölur stinga í stúf og lýsa þau Svíum sem rólyndisþjóð að öðru leyti. Fórnarlömb skotárása eru flest á aldrinum 20-29 ára.
Innanríkisráðherra Svía, Mikael Damberg, segir að Svíar megi ekki venjast þessu ástandi og telur hann að mögulegt sé að snúa þróuninni við.