ESA telur lokun Noregs brot gegn EES-reglum

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, telur landamæralokun norskra stjórnvalda brot gegn skuldbindingum …
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, telur landamæralokun norskra stjórnvalda brot gegn skuldbindingum landsins samkvæmt EES-samningnum. AFP

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu, telur landamæralokun Noregs, sem nú hefur staðið frá 29. janúar, brjóta gegn þeim ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem mæla fyrir um frjálsa fólksflutninga á samningssvæðinu.

Hefur ESA, í kjölfar þeirrar niðurstöðu sinnar og langra viðræðna við norsk stjórnvöld síðustu mánuði, stofnað til máls gegn Noregi og sent norskum stjórnvöldum bréf, þar sem þeim er veittur sex vikna frestur, til 7. júlí, til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

„Reglurnar eiga að sjálfsögðu að vera í samræmi við okkar skuldbindingar gagnvart EES,“ segir Monica Mæland, dómsmálaráðherra Noregs, við norska ríkisútvarpið NRK um þær reglur sem gilda um för fólks inn í Noreg.

2.100 manns vísað frá

Með örfáum undantekningum hafa eingöngu norskir ríkisborgarar og útlendingar með fasta búsetu í Noregi mátt koma til Noregs síðan landamærunum var lokað í janúarlok þegar hið svokallaða breska afbrigði kórónuveirunnar tók að greinast víða um Noreg.

Fyrstu tvo mánuðina eftir að lokunin tók gildi var alls 2.100 manns á leið til Noregs vísað frá landinu og vöktu sum brottvísunarmálanna hvort tveggja athygli og úlfaþyt, svo sem brottvísun Kingu Agötu Mulawka, sem býr í Noregi en fór til Póllands í jarðarför móður sinnar. Þá hafa 2.000 Pólverjar hótað hópmálsókn gegn norska ríkinu til að sækja bætur í ríkissjóð fyrir vinnutap sem þeir urðu fyrir eftir að vera ekki hleypt inn í landið til vinnu, en þar er á ferðinni fólk sem hefur búið og starfað í Noregi, margt hvert um árabil, án þess að flytja lögheimili sitt til landsins.

Kveður ESA það torkennilegt að Noregur neiti fjölda EES-borgara um að koma til landsins þrátt fyrir að allir sem þangað koma þurfi hvort sem er að sæta sóttkví fyrstu dagana. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu ESA í dag.

„Noregur og önnur ríki eru í fullum rétti til að setja ferðum borgara sinna skorður innan landamæranna í krafti sóttvarnareglna,“ segir Jarle Hetland, upplýsingafulltrúi ESA í Noregi, við NRK. „Við bendum á að skorðurnar ganga lengra en það sem strangt til tekið má telja nauðsynlegt. Reglurnar verða að vera skýrari og þær mega ekki mismuna fólki. Við teljum vel gerlegt að gæta sóttvarna án þess að fari í bága við reglur EES.“

Meira og minna í lás í heilt ár

Trygve Slagsvold Vedum, formaður norska Miðflokksins, kveðst ósammála túlkun eftirlitsstofnunarinnar. „Noregur hefur verið meira og minna í lás í heilt ár og hér ríkt neyðarástand. Fórnir hafa verið færðar til að hemja smitið og það er bráðnauðsynlegt að hafa fulla stjórn á landamærunum. Norsk stjórnvöld verða sjálf að haga sóttvarnareglum á landamærum í samræmi við mat sitt og heilbrigðisyfirvalda,“ segir Vedum.

Mæland dómsmálaráðherra segir strangar sóttvarnareglur í Noregi hafa komið landinu gegnum faraldurinn með mun lægri smittölum en víðast annars staðar. „En reglurnar verða að sjálfsögðu að vera í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum. Nú kynnum við okkur mat eftirlitsstofnunarinnar í þaula og svörum svo bréfinu fyrir 7. júlí,“ segir ráðherra.

NRK

Aftenposten

Dagbladet

Fréttatilkynning ESA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert