Pútín hneykslaður yfir viðbrögðunum

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands og Vladimir Pútín, forseti Rússlands hittust …
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands og Vladimir Pútín, forseti Rússlands hittust í dag í Sochi. AFP

Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, hefur vísað viðbrögðum Vesturveldanna á bug vegna flugvélar sem gert var að lenda í Minsk í Hvíta-Rússlandi til þess að handtaka blaðamanninn og aðgerðasinnann Roman Protasevits.

Pútín og Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hittust á fundi í dag í Sochi í Rússlandi þar sem þeir byrjuðu á umræðu um að þeir gætu farið að synda í Svartahafi. Þeir lýstu svo viðræðunum sem „tilfinningaflóði“. Rússland er einn helsti bandamaður Hvíta-Rússlands, sem var hluti af Sovétríkjunum og hefur haldið fast í tengsl sín við Kreml.

Fordæma ákvörðun ESB

Yfirvöld í Rússlandi hafa fordæmt ákvörðun Evrópusambandsins um að meina flugfélögum sem rekin eru í aðildarríkjum að fljúga inn í lofthelgi Hvíta-Rússlands. María Sakaróva, talskona utanríkisráðuneyti Rússlands, segir að með því sé ESB að ógna öryggi flugfarþega og að ákvörðunin sé „algerlega óábyrg“.

Air France hefur því þurft að aflýsa tveimur flugum til Rússlands eftir að Rússar höfnuðu flugáætlun félagsins þar sem kom fram að það yrði ekki flogið yfir lofthelgi Hvítrússa. Dímítrí Peskov, talsmaður Pútíns, sagði í morgun að ákvörðunin væri byggð á því að til stóð að fljúga flugvélunum inn í Rússland á óhefðbundnum leiðum og að því fylgdu „tæknileg vandamál“.

Einhverjum flugvélum sem sniðið hafa fram hjá lofthelgi Hvíta-Rússlands hafa þó verið hleypt inn í lofthelgi Rússlands í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert