Trump í tveggja ára Facebook-bann

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Facebook hefur lokað öllum aðgangi Donalds Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, á miðlum þess næstu tvö árin. 

Síðum Trump var lokað í kjölfar árása stuðningsmanna hans á bandaríska þinghúsið í Washington í janúar. Facebook segir að færslur Trumps hafi verið alvarlegt brot á reglum samfélagsmiðilsins. Trump hefur hins vegar lýst því yfir að lokunin sé „móðgun“ við þær milljónir sem kusu hann í forsetakosningunum í haust.

Eftirlitsnefnd Facebook gagnrýndi í síðasta mánuði að bann forsetans fyrrverandi væri ekki bundið tíma. Hingað til hefur Facebook aðeins sagt að aðgangur hans verði lokaður í óákveðinn tíma. Tveggja ára Facebook-bann Trumps mun gilda til 7. janúar 2023, en aðgangi hans var lokað 7. janúar síðastliðinn.

Trump sagði í yfirlýsingu í dag að úrskurðurinn væri móðgun, „þeir eiga ekki að komast upp með það að ritskoða og þagga niður í fólki, og í lokin, munum við vinna. Landið okkar getur ekki sætt þessu ofbeldi lengur!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert