Nýtt lyf fyrir sjúklinga með Covid-19

Fjöldi fólks hefur þurft að leggjast inn á spítala vegna …
Fjöldi fólks hefur þurft að leggjast inn á spítala vegna Covid-19. AFP

Ný samblanda efnasmíðaðra mótefna getur dregið úr dauðsföllum meðal Covid-sjúklinga sem sýna lélega ónæmissvörun. Þetta sýna niðurstöður úr viðamikilli klínískri rannsókn sem birtar voru í dag, miðvikudag.

Meðferðin, sem þróuð var af bandaríska líftæknifyrirtæknu Regeneron og var m.a. gefin Donald Trump, fyrrum bandaríkjaforseta þegar hann smitaðist af Covid-19, hefur fram að þessu aðeins verið notuð til að meðhöndla sjúklinga sem voru á fyrstu stigum sjúkdómsins, segir í tilkynningu fréttastofunnar AFP.

Meðferðin minnkar dánarlíkur um fimmtung

Rannsóknin, sem framkvæmd var í Bretlandi, hefur þó leitt í ljós að lyfið getur einnig reynst árangursríkt í meðferð við alvarlegri tilfellum Covid-19.

Meðferðin, sem kallast REGN-COV2 á að draga úr líkum á dauðsföllum meðal þeirra inniliggjandi sjúklinga með Covid-19 sem ekki hafa sýnt eðlilega ónæmissvörun sjálfir, segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum rannsóknarinnar.

Lyfið samanstendur af tvennskonar efnasmíðuðum mótefnum sem bindast próteinum veirunnar og koma þannig í veg fyrir að veiran smiti aðrar frumur. Þannig getur lyfið verið lausn fyrir fólk með bælt ónæmiskerfi, sem á í hættu á að geta ekki framleitt nægt mótefni sjálft - jafnvel þó það hafi verið bólusett eða sýkt af veirunni áður.

Er þetta í fyrsta skipti sem sýnt er fram á ávinning meðferðar af þessu tagi, að sögn Martin Landray, prófessors í lyfjafræði við Oxford háskólann og einn aðalrannsakenda rannsóknarinnar.

Þáttakendur rannsóknarinnar voru 9.800 sjúklingar, sem lögðust inn á spítala á tímabilinu september-maí. Hluti þeirra hlaut mótefnameðferð samhliða hefðbundinni umönnun en þeir einstaklingar voru valdir af handahófi.

Þriðjungur þeirra sjúklinga hafði ekki þróað mótefni við veirunni við upphaf meðferðarinnar.

Meðferðin minnkaði dánarlíkur þessara sjúklinga um fimmtung. Þannig létust um 30% þeirra sjúklinga sem ekki hlutu lyfjameðferð eftir 28 daga miðað við aðeins 24% þeirra sem hlutu lyfjameðferð.

Ávinningur meðferðarinnar dreginn í efa

Vísindamenn hafa þó gagnrýnt niðurstöðu rannsóknarinnar og segja sumir þeirra dánartíðni sjúklinga ekki hafa lækkað nógu mikið til að ávinningur meðferðarinnar geti talist markverður. Þá hafa einni verið gerðar athugasemdir við kostnað lyfsins, sem þykir of dýrt fyrir almennan markað og þar af leiðandi aðeins aðgengilegt efnaðri löndum heimsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert