Raisi verður forseti Írans

Raisi ber svartan túrban á höfði.
Raisi ber svartan túrban á höfði. AFP

Íhaldssami klerkurinn Ebrahim Raisi hefur verið lýstur sigurvegari forsetakosninganna í Íran. Búist hefur verið við þessari niðurstöðu eftir að fjölda pólitískra andstæðinga hans var meinað að bjóða sig fram til embættisins.

Yfirvöld í landinu segja Raisi hafa fengið 62% atkvæða þegar 90% hafa verið talin, en kosningarnar voru haldnar í gær. Ekkert hefur verið gefið upp um kjörsókn.

„Ég óska almenningi til hamingju með val sitt,“ sagði forsetinn Hassan Rouhani, nú á útleið eftir að hafa gegnt embættinu í tvö kjörtímabil sem er lögbundið hámark. Lýkur hann störfum í ágúst.

Æðstl klerkurinn greiddi atkvæði sitt í gær.
Æðstl klerkurinn greiddi atkvæði sitt í gær. AFP

Þegar búið að kjósa einhvern

Raisi stendur á sextugu og tekur við sem forseti á viðkvæmum tíma, þar sem Íran sækist eftir að bjarga samkomulagi við Vesturlönd um beislun kjarnorku innan landamæranna og um leið brjótast undan efnahagsþvingunum Bandaríkjanna sem hafa haft slæm áhrif á efnahag landsins.

Raisi er æðsti handhafi íranska dómsvaldsins og ber því svartan túrban á höfði sér, til votts um beinan ættlegg frá Múhameð spámanni. Hann er að sama skapi talinn náinn bandamaður sjálfs æðsta klerksins, Ayatollah Ali Khamenei, sem fer með tögl og hagldir í ríkinu.

„Hvort sem ég kýs eða ekki, þá er þegar búið að kjósa einhvern,“ hefur fréttastofan AFP eftir verslunareigandanum Saeed Zareie í höfuðborginni Teheran. 

„Þeir skipuleggja kosningarnar fyrir fjölmiðlana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert