Óhagstætt gengi gleypir mannúðaraðstoð

Í Líbanon búa yfir milljón sýrlenskir flóttamenn.
Í Líbanon búa yfir milljón sýrlenskir flóttamenn. AFP

Að minnsta kosti 250 milljónir dollara, eða um 31 milljarður íslenskra króna, sem áttu að fara í mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna til flóttamanna og fátækra í Líbanon, hefur tapast vegna sölu á gjaldeyri á óhagstæðu gengi hjá bönkum landsins. Þetta kemur fram á vef Thomson Reuters Foundation.

Líbanon tekst nú á við eina verstu efnahagskreppu sem landið hefur upplifað en meira en helmingur íbúa lifir undir fátæktarmörkum samkvæmt Alþjóðabankanum. Kreppan stafar af umtalsverðum gengislækkunum á líbanska pundinu í lok árs 2019 sem leiddi til þess að verðlag snarhækkaði.

Á milli þriðjungs og helmings fjárhagsaðstoðar sem Líbanon hefur hlotið síðan kreppan skall á hefur verið gleypt af bönkunum.

Efnahagsástandið hefur bitnað einna verst á sýrlenskum og palestínskum flóttamönnum sem geta keypt mun minna fyrir fjárhagsaðstoð sem þeir fá frá Sameinuðu þjóðunum. Í Líbanon búa yfir milljón sýrlenskir flóttamenn, níu af hverjum tíu lifa við mikla fátækt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka