Hið minnsta sjö létust og 45 særðust í tíu skotárásum í níu ríkjum Bandaríkjanna um helgina. Á meðal fórnalamba árásanna voru 10 og 15 ára gömul börn.
Tíu skotárásir urðu sömuleiðis síðustu helgi. Þá létust tólf og 57 særðust. Alls hafa orðið 293 skotárásir í Bandaríkjunum það sem af er ári. Um er að ræða árásir þar sem fjórir eða fleiri, utan árásarmannsins, eru skotnir.
Einn lést og þrír særðust í Atlantic-borg á sunnudagskvöld. Þá særðust fjórir í skotárás í Newark í New Jersey á laugardag og einn lést og fjórir særðust í Colorado á sunnudagskvöld. Einn lést og fjórir særðust í Indiana snemma á sunnudagsmorgun og fjórir særðust í Richmond í Virgina á svipuðum tíma. Þá létust tveir og átta særðust í skotárás í Dallas skömmu eftir miðnætti að staðartíma á sunnudagskvöld og einn lést og sex særðust í Oakland í Kaliforníu á laugardagskvöld.
Þá lést einn og fjórir særðust í skotárás snemma morguns á laugardag í Anchorage í Alaska. Tveir létust og fjórir særðust í Baton Rouge í Louisiana á laugardagsmorgun og fimm særðust í Minneapolis á föstudagskvöld.