Fimm létust þegar loftbelgur hafnaði á raflínu

Öll fimm sem voru í loftbelgnum þegar hann hafnaði á …
Öll fimm sem voru í loftbelgnum þegar hann hafnaði á raflínu létust. Ljósmynd/Twitter

Fimm létust eftir að loftbelgur rakst á raflínu í Albuquerque í Nýju-Mexíkó. Samkvæmt upplýsingum frá lögregluyfirvöldum í borginni losnaði karfan sem farþegarnir voru í frá belgnum og féll um 30 metra til jarðar.  

Sjónarvottar lýsa því á samfélagsmiðlum hvernig allt loft fór úr loftbelgnum sem féll rakleiðis til jarðar. Um 13 þúsund íbúar í nágrenninu voru án rafmagns eftir slysið sem átti sér stað um klukkkan sjö í morgun að staðartíma, eða í hádeginu að íslenskum tíma. 

Flugmaður loftbelgsins lést, ásamt tveimur körlum og tveimur konum. Fjögur létust samstundis en einn mannanna lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Ekki liggur fyrir hvað olli slysinu en flugmálastjórn Bandaríkjanna er með málið til rannsóknar. 

Joshua Perez varð vitni að slysinu og meðal þeirra fyrstu sem komu á vettvang og hjálpaði til við að slökkva á gaskútnum í belgnum. „Að sjá loftbelg falla til jarðar með þessum hætti er átakanlegt,“ segir hann.




Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert