Fyrstu tölur í annarri umferð frönsku sveitarstjórnarkosninganna benda til að hvorki hægriöfgaflokkur Marine Le Pen né miðjuflokkur Emmanuels Macrons Frakklandsforseta hafi unnið sigur í einu einasta héraði landsins.
Í kosningunum er kosið um héraðsstjórnir í 13 héruðum á meginlandi Frakklands og einu til viðbótar utan meginlandsins. Þar að auki er kosið til stjórnar í 96 minni stjórnsýslueiningum og keppa um 15.700 frambjóðendur um alls 4.100 sæti.
Áætlað er að kjörsókn sé einungis um 30% í þessari umferð og að flokkur Macron nái ekki einu sinni 10% fylgi. Mið-hægri flokkur Repúblikana í Frakklandi leiðir baráttuna ásamt Sósíalistaflokknum.
Frakkar ganga næst til forsetakosninga að tæpu ári og því eru niðurstöður þessara sveitarstjórnarkosninga taldar gefa nokkra vísbendingu um hvernig þær geti farið. Á meðal frambjóðenda verða þá Macron og Le Pen að nýju.