Læknar sjá fram á „flóðbylgju“ eftirkasta

Frá meðferð vegna eftirkasta Covid-19 í Póllandi. Þar í landi …
Frá meðferð vegna eftirkasta Covid-19 í Póllandi. Þar í landi hafa rannsóknir verið gerðar á vandamálinu. AFP

Slæm eftirköst Covid-19 hafa áhrif á milljónir manna á heimsvísu og kljást læknar um allan heim nú við að skera úr um það hvað veldur eftirköstunum og hvernig á að meðhöndla þau. Rannsóknir benda til þess að einn af hverjum þremur sem sýkist af Covid-19 muni upplifa einkenni sjúkdómsins lengur en í tvær vikur. Þá upplifa um 10% hópsins einkenni í 12 vikur eða lengur eftir sýkingu. 

Í ítarlegri umfjöllun Guardian um málið er rætt við mann sem kljáist við mjög alvarleg eftirköst sjúkdómsins sem og lækna og vísindamenn sem hafa rannsakað eftirköstin og vara nú við „flóðbylgju“ slíkra tilfella. Læknarnir telja að heilbrigðiskerfi heimsins þurfi að vera tilbúin að takast á við vandann.

„Þetta er mjög alvarlegt vandamál,“ segir Ziyad Al-Aly, framkvæmdastjóri faraldsfræðideildar hjá hersjúkrahúsinu í St. Louis í Bandaríkjunum. 

Eftirköst birtast í flestum kerfum líkamans

Í þeim tilgangi að skilja betur hvers vegna fólk upplifir mismunandi og mismikil eftirköst í kjölfar Covid-19 fylgdust Al-Aly og kollegar hans með 87.000 bandarískum hermönnum í sex mánuði eftir að þeir höfðu smitast af Covid-19. 

Rannsóknin leiddi í ljós að þeir sem upplifðu eftirköst fundu helst fyrir einkennum í öndunarfærum, þar á meðal hósta, mæði og lágri súrefnismettun í blóði. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í aprílmánuði í tímaritinu Nature. 

Þótt öndunarfæraeinkenni væru algengust virtust eftirköstin birtast í flestum kerfum líkamans.

„Hvar sem við litum voru merki um sjúkdóminn,“ sagði Al-Aly. Rannsóknin leiddi í ljós að eftirköst komu fram í lungum, heila, hjarta, lifur og á húð. 

Eftirköstin birtust t.a.m. í hjarta- og lungnaskemmdum, svefnvandamálum, minnisvandamálum, geðröskunum og útbrotum á húð. 

„Áhættan var augljós, jafnvel á meðal fólks sem var ekki á sjúkrahúsi vegna Covid-19,“ segir Al-Aly. 

Þriðjungur upplifði eftirköst

Í Ástralíu hafa vísindamenn við Kirby-stofnun Háskólans í Nýja Suður-Wales í borginni Sydney fylgst með 99 sjúklingum sem greindust með Covid-19 í fyrstu bylgju faraldursins í Ástralíu í mars og apríl 2020. Frumniðustöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þriðjungur sjúklinga upplifði enn einkenni Covid-19 átta mánuðum eftir greiningu. 

Hér má lesa umfjöllun Guardian í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert