Um 56 þúsund manns hafa greinst með Covid-19 daglega í Evrópu undanfarna sjö daga en smitum hefur fjölgað um 21% í heimsálfunni frá síðustu viku. Vísindamenn telja að hægt sé að rekja þessa aukningu til Delta-afbrigðisins sem herjar nú á Evrópubúa.
Auk smita hefur fjöldi dauðsfalla vegna veirunnar einnig verið að aukast í Evrópu en um það bil 1.100 dauðsföll eru skráð á hverjum degi, sem gerir 8% aukningu frá fyrri viku.
Bretar og Rússar hafa komið verst út úr nýja afbrigðinu í Evrópu en löndin eru bæði með flest ný smit og einnig hröðustu útbreiðsluna síðustu viku. Ríflega helmingur dauðsfallanna í heimsálfunni er í Rússlandi en undanfarna viku hafa um 600 manns látið lífið á hverjum degi vegna Covid. Fjöldi dauðsfalla í Bretlandi hefur einnig tekið stökk en 10 til 17 hafa verið skráð þar daglega síðustu viku.
Misjafnt ástand í Evrópu
Á meðan Bretar og Rússar glíma við aukningu smita eru önnur lönd í Evrópu að sjá meiri árangur í baráttunni við faraldurinn. Síðastliðna sjö daga hefur smitum fækkað um 23% í Frakklandi en daglega greinast nú um 1.830 með Covid þar í landi. Þjóðverjar og Ítalir fagna einnig árangri en bæði lönd eru með rúmlega 30% færri smit en vikuna á undan.
Þess ber að geta að þrátt fyrir mikla aukningu á síðustu dögum er smitfjöldi langt undir þeim tölum þegar faraldurinn stóð í hámarki en þá dóu um 5.700 einstaklingar á hverjum degi.