Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti í gær áætlanir bandarískra stjórnvalda til innviðauppbyggingar í ræðu í vöruskemmu í Wisconsin. Áætlanirnar fela í sér útgjöld upp á um þúsund milljarða bandaríkjadala.
Biden sagði m.a. í ræðu sinni að Bandaríkin þyrftu að gera heilmargt til að viðhalda samkeppnisstöðu sinni á alþjóðavettvangi, allt frá því að byggja brýr til lagningar net- og símatengingar þvert um Bandaríkin.
Hann bar saman áætlanir stjórnvalda við byggingu hraðbrautakerfisins um Bandaríkin, sem tryggði ört vaxandi hagkerfi Bandaríkjanna forskot við á fyrri hluta síðustu aldar. Biden segir áætlanir stjórnvalda af því tagi sem „einungis hið opinbera getur ráðist í“.
Biden er sagður ætla að reyna að fá tvö lagafrumvörp samþykkt sem bæði hverfast um metnaðarfulla innviðauppbyggingu. Hið fyrra, sem mun aðallega snúa að brúarsmíði og lagningu nýrra vega, er til þverpólitískrar umræðu demókrata og repúblíkana, og standa vonir til þess að sjaldgæf sátt myndist milli flokkanna tveggja um þau mál.
Frumvarpið myndi auk þess gefa kost á því að skipta út hættulegum blýlögnum á heimilum milljóna Bandaríkjamanna, auka breiðbandstengingu bandarískra heimila og upp yrði komið fjölmörgum hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla um gervöll Bandaríkin.
Þrátt fyrir glæstar vonir er ekki endilega víst að repúblikanar muni samþykkja svo metnaðarfullt frumvarp, enda er áætlaður kostnaður við framkvæmd þess sem það kveður á um ein billjón dollara (þúsund milljarðar dollara).
En Biden er stórhuga og vill koma þessu frumvarpi í gegnum örsmáan meirihluta demókrata í báðum deildum Bandaríkjaþings, auk frumvarps sem jafnvel er enn stærra í sniðum. Það segir Biden að hverfist um „mannlega innviðauppbyggingu“ og snýr að eflingu menntunar á öllum skólastigum. Það frumvarp gæti mögulega hlaupið á nokkrum milljörðum bandaríkjadala.
Hvað sem verður, er ljóst að Biden ætlar sér stóra hluti í samkeppni við önnur stórveldi á alþjóðavettvangi. Kínverjar hafa stóraukið sín fjárútlát á sviði innviðauppbyggingar og tækniþróunar og hafa tekið fram úr Bandaríkjamönnum þegar kemur að fjárveitingum á þessum sviðum. Biden segir að frumvörpin tvö og fjármunirnir sem varið verður til þeirra muni senda „skilaboð til okkar sjálfra og til heimsins alls, um að bandarískt lýðræði geti skilað fólkinu auknum gæðum“.