Sænska lögreglan leitar nú að manni sem varð lögreglumanni að bana í Biskopsgården nord í Gautaborg í gærkvöldi. Lögreglan telur þó líklegt að um slysaskot hafi verið að ræða.
Þetta kemur fram á vef sænska ríkisútvarpsins SVT.
Að sögn lögreglu hefur enginn verið handtekinn en rannsókn málsins er í fullum gangi.
Líklegast þykir að skotárásin hafi ekki beinst að lögreglumanninum og sé því um slys að ræða en talið er að hann hafi lent á milli í skotárás tveggja glæpagengja.
Enn eru engar skýrar vísbendingar komnar fram en lögreglan skoðar nú ólíka valmöguleika í málinu.
Umfangsmikil leit stóð yfir í nótt að árásarmanninum en tilkynningin um skotárásina barst klukkan 22:34 að staðartíma í gærkvöldi. Var þá greint frá því að lögregluþjónn og vegfarandi á svæðinu hefðu særst en að sögn vitnis á vettvangi hafði þremur skotum verið hleypt af.
Lögregluþjónninn var úrskurðaður látinn rétt fyrir klukkan þrjú í nótt.