Matvælaverð rýkur upp úr öllu valdi

Fólk bíður í röð eftir matargjöf í Amritsar-borg á Indlandi.
Fólk bíður í röð eftir matargjöf í Amritsar-borg á Indlandi. AFP

Heimsmarkaðsverð á matvælum hækkar nú hraðar en það hefur nokkru sinni gert síðastliðinn áratug, með þeim afleiðingum að fátækustu þjóðir heims eiga um mjög sárt að binda, í ofanálag við baráttuna við heimsfaraldur kórónuveiru.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) segist hafa áhyggjur af því að hækkandi matvælaverð geti kynt undir innanríkisdeilum margra þróunarríkja, sem nú þegar glíma við mikla stjórnmálaóreiðu.

Samkvæmt FAO var verð á matvælum á alþjóðavísu um 40% hærra í maí en það var á sama tíma í fyrra. Það er mesta verðhækkun síðan árið 2011.

Á ársgrundvelli hefur maísverð hækkað um 88%, verð á sojabaunum um 73%, korn- og mjólkurvörum um 38%, sykri um 34% og kjötvöru um 10%.

Á árunum 2007 og 2008 varð hækkandi matarverð kveikjan að blóðugum óeirðum í stórborgum víða um heim. Hækkandi matarverði var einnig að hluta til um að kenna, árið 2011, þegar arabíska vorið upphófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert