Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, var lagður inn á sjúkrahús í morgun, veikur af Covid-19. Hann undirgengst nú rannsóknir.
Utanríkisráðuneyti Lúxemborgar staðfesti síðdegis í dag að til öryggis yrði Bettel undir eftirliti næsta sólarhringinn, nema læknar taki ákvörðun um annað.
RTL greinir frá.
Bettel greindist smitaður af Covid-19 í síðustu viku, nokkrum dögum eftir að hann var viðstaddur leiðtogafund Evrópusambandsins.
Hinir 26 leiðtogar aðildarríkja sambandsins eru þó ekki taldir hafa verið berskjaldaðir fyrir smiti Bettel þar sem þeir umgengust hann ekki í innan við tveggja metra fjarlægð í meira en 15 mínútur.
Bettel hefur einungis fengið fyrri bólusetningu gegn veirunni.