Donald Tusk, fyrrverandi forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins og nývalinn leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Póllandi, sakaði í dag stjórnvöld þar í landi um að haga utanríkisstefnu landsins eftir stefnu Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Íhaldsflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) undirritaði í síðustu viku sameinaða yfirlýsingu hægrisinnaðra flokka Evrópuþjóða sem efast um gildi Evrópusambandsins. Yfirlýsingin snýr að einstaklingsmiðaðri utanríkisstefnu og kallar eftir meira fullveldi Evrópusambandsþjóða.
„Þessir nýju vinir Jaroslaws Kaczynski [formanns PiS] eru öll ólík en lík á einn hátt og það er að Rússland undir stjórn Pútíns er nær þeirra hjarta en Evrópusambandið,“ sagði Tusk.
„Afleiðingarnar geta verið talsvert hættulegri en við getum ímyndað okkur,“ sagði hann aðeins degi eftir að hann var skipaður leiðtogi stjórnarandstöðunnar af hinum frjálslynda og Evrópusinnaða borgaraflokki (PO).
Tusk sagði að yfirlýsingin væri enn eitt skrefið í átt að „fullkominni einangrun“ Póllands á alþjóðavettvangi.
„Sá eini sem opnar kampavínið eftir ákvörðun líkt og þessa er Pútín,“ sagði Tusk við blaðamenn.