Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ítrekaði fyrir þjóðum heimsins sem stefna að því að aflétta sóttvarna- og samkomutakmörkunum að gæta fyllstu varúðar við afléttingu. Þá varaði stofnunin við því að þrátt fyrir að stór hluti fólks sé bólusettur stöðvi það ekki dreifingu veirunnar. Þetta kom fram í tilkynningu frá stofnuninni í dag.
Einnig var tekið fram í tilkynningunni að passa þurfi að þeim árangri, sem hefur verið náð og hefur þurft að vinna hörðum höndum að, verði ekki kastað á glæ.
Spurður um áform Englendinga um að aflétta öllum takmörkunum 19. júlí næstkomandi sagði Michael Ryan, stjórnandi hjá stofnuninni: „Ég tel að best sé að stíga varlega til jarðar í afléttingum, því það verða afleiðingar af því að aflétta öllu á einu bretti“.
Tölfræði frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun sýnir að eftir sjö samfelldar vikur þar sem smitum fækkaði á heimsvísu hafi nýjum smitum fjölgað undanfarnar tvær vikur.
Áðurnefndur Ryan segir einnig um málið: „Að halda því fram að dreifing veirunnar muni ekki aukast við algjörar afléttingar, vegna bólusetninga, er rangt.“
Enn fremur segir hann: „Smitin munu aukast þegar við afléttum takmörkunum einfaldlega vegna þess að við erum ekki búin að bólusetja alla. Auk þess vitum við ekki enn með fullri vissu hve vel bóluefnin verja okkur gegn því að smitast, eða bera með okkur veiruna og dreifa henni áfram. Með aukinni dreifingu smita setjum við okkar viðkvæmustu hópa á slæman stað á ný.“