Hinn norski Joseph Göbbels

Halldis Neegård Østbye reis til æðstu metorða innan Nasjonal Samling, …
Halldis Neegård Østbye reis til æðstu metorða innan Nasjonal Samling, þjóðernisflokks Quislings, þar sem konur voru ekki á hverju strái. Hér stendur hún við hlið flokksleiðtogans í fremstu röð á myndinni. Ljósmynd/Þjóðskjalasafn Noregs

Það var ekki fyrr en skæðadrífa af tréflísum fyllti litla sumarhúsið í Sølen í Rendalen, litlu landbúnaðarbyggðarlagi í þáverandi Hedmark í Noregi, 15. maí 1945, sem dyrnar opnuðust og liðsmenn andspyrnuhreyfingarinnar hættu vélbyssuskothríðinni. Fyrir utan að vera kunn gönguskíðakona var konan sem steig út úr húsinu, og var handtekin umsvifalaust, fyrrverandi áróðursstjóri Nasjonal Samling, þjóðernisflokks Vidkuns Quislings, og helsti hugmyndasmiður gyðingahatursins, sem flokkurinn ól á og gerði allt til að innræta norskri þjóð á styrjaldarárunum.

Þetta var Halldis Neegård Østbye frá Stor-Elvdal í Hedmark, einn nánasti samstarfsmaður Quislings innan þjóðernisflokks hans, sem þjónaði nasistum meðan á hersetu þeirra í Noregi stóð, árin 1940 – 1945.

Østbye gekk til liðs við NS árið 1933.
Østbye gekk til liðs við NS árið 1933. Ljósmynd/Þjóðskjalasafn Noregs

Østbye var fædd árið 1896 og hét Halldis Neegård uns hún gekk í hjónaband. Hún ólst upp við þröngan kost ásamt níu systkinum á bóndabæ í Stor-Elvdal. Foreldrar hennar skildu árið 1910 og móðirin tók yngstu börnin með sér til Óslóar. Faðir hennar lét sig þá hverfa til Kanada og var henni þá komið fyrir hjá frændfólki í Ålesund uns hún flutti til móður sinnar og ömmu í Ósló.

Árið 1934 gerði Quisling hana að áróðursstjóra kvennadeildar Nasjonal Samling og árið eftir skipaði hann hana skrifstofustjóra fjölmiðla- og áróðursskrifstofu flokksins.

Boðskapur Østbye byggðist á stækri andúð í garð gyðinga. „Hún lagði línurnar að andgyðinglegri stefnu NS, hún var arkitektinn,“ segir sagnfræðingurinn Vegard Sæther og leggur áherslu á að Østbye hafi brotist til æðstu metorða innan flokks sem gaf konum mjög takmarkað rými. „Þær áttu að ala börn og vera heima.“

Frá vinstri talið sjást hér Vidkun Quisling, Rolf Jørgen Fuglesang, …
Frá vinstri talið sjást hér Vidkun Quisling, Rolf Jørgen Fuglesang, menningarmálaráðherra í ríkisstjórn Nasjonal Samling árin 1942 til 1945, Halldis Neegård Østbye og Maria Quisling á tröppum Gimle, heimilis Quisling-hjónanna á Bygdøy, rétt utan við borgarmörk Óslóar. Dagsetning óþekkt. Ljósmynd/Þjóðskjalasafn Noregs

Það var sjónarmið Hitlers sjálfs enda gjörbreyttist staða Østbye eftir að nasistar lögðu Noreg undir sig í apríl 1940. Þjóðverjar sáu hana ekki fyrir sér sem stjórnanda af neinu tagi innan síns norska systurflokks. Í bréfi, sem Østbye ritaði Quisling 8. júní 1940, dregur hún ekki fjöður yfir biturð sína í skugga nýs veruleika:

Østbye skrifaði nokkrar bækur á ferli sínum, þar á meðal …
Østbye skrifaði nokkrar bækur á ferli sínum, þar á meðal fjögurra binda safn með tilvitnunum í Quisling. Bókina „Gyðingavandamálið og lausn þess“, sem kom út árið 1939, skrifaði hún undir dulnefninu Irene Sverd, en síðari útgáfa bókarinnar kom út undir réttu nafni hennar. Ljósmynd/Höf. ók.

„Ég geri mér grein fyrir því að kyn mitt er hindrun,“ skrifaði hún og lýsti því enn fremur, að hún gæfist ekki upp baráttulaust: „Það væri móðgun ef karlmaður, síður hæfur en ég, fengi stöðu mína,“ var blákalt mat áróðursstjórans, sem engu að síður varð að sætta sig við að töglin og hagldirnar voru að ganga henni úr greipum.

Var hún of öfgasinnuð?

„Ég held að hún hafi verið of öfgasinnuð. Hún gekk of langt í gyðingahatrinu og varði það af of mikilli hörku,“ segir sagnfræðingurinn Sæther. Annað og síðara bréf hennar til flokksleiðtogans sýndi þetta svo ekki varð um villst og var eitt höfuðsönnunargagnanna gegn henni þegar Norðmenn drógu nasista sína fyrir dóm sem landráðamenn eftir stríðið.

Árið 1948 var Østbye dæmd til sjö ára fangavistar. Áður en afplánun hennar hófst útvegaði hún sér falsað vegabréf og flúði til Spánar. Vegna veikinda fóstursonar hennar sneri hún til baka til Noregs og fór í fangelsi. Halldis Østbye var náðuð árið 1953, en sneri aldrei baki við stefnumálum sínum, sem henni fannst hún hafa tapað með öllu. Quisling og Hitler voru farnir. Hún endaði að lokum á geðsjúkrahúsi, þar sem hún lést 19. október 1983, gleymd þjóðinni sem hana dreymdi um að bjarga úr klóm gyðinga og kommúnista.

Nánar má lesa um sögu Halldis Neegård Østby í Morgunblaðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert