Morgan Johansson, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, tilkynnti í dag að ríkisstjórnin komi til með að reyna að fá stuðning þingsins þess efnis að herða refsingar fyrir unga afbrotamenn. Þetta sé gert til þess að stemma stigu við vexti glæpagengja í Svíþjóð.
Stefnan er að afnema sjálfvirka styttingu refsingar fyrir afbrotamenn á aldrinum átján til tuttugu ára. Refsingar við alvarlegum glæpum svo sem morðum, nauðgunum og vopnuðum ránum yrðu því ekki styttar sé afbrotamaðurinn á áðurnefndu aldursbili.
Yfirvöld í Svíþjóð hafa undanfarin ár átt í vandræðum með vaxandi öldu glæpagengja og glæpi þeim tengda. Í Svíþjóð er til dæmis hæsta tíðni banvænna skotárása af öllum Evrópulöndum ef miðað er við höfðatölu.