Ellefu rafbílabrunar á mánuði

Rafbíll brennur í Ósló í júní. Hér getur þurft að …
Rafbíll brennur í Ósló í júní. Hér getur þurft að „smøre seg med tålmodighet“ eins og Norðmenn kalla það því slökkvistarfið getur tekið tímann sinn, enda slökkvilið farið að grípa til nýrra vopna í baráttunni. Ljósmynd/Slökkviliðið í Ósló

Rammt hefur kveðið að brunum í rafmagnsknúnum bifreiðum, eða rafbílum, í Noregi síðustu fjórar vikurnar og eru slíkir brunar nú orðnir ellefu. Að sögn slökkviliðsstjórans í Sarpsborg, sem greinir frá nýrri aðferðafræði norskra slökkviliðsmanna við að slökkva í bílunum, er ekki heiglum hent að slökkva eld í logandi rafhlöðu þessara farartækja sem sífellt setja ný met í sölu í Noregi.

„Í þessum rafhlöðum getur kviknað aftur,“ segir Terje Surdal, téður slökkviliðsstjóri, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „þetta eru mjög erfiðir brunar að fást við, sama hve mikið vatn er notað. Valkosturinn er þá að hífa bílinn upp og sökkva honum ofan í gám, fullan af vatni,“ segir Surdal frá.

Á fimmtudaginn héldu menn hans í útkall við Tunevannet í Sarpsborg þar sem eldur logaði í rafbíl. Byrjaði slökkviliðið þá á því að draga logandi bifreiðina í burtu frá byggingum sem hún stóð nálægt, áður en hafist var handa við slökkvistarf sem tók heila eilífð. Var þetta annar rafbílabruninn þar á svæðinu þann daginn, því í Fredrikstad hafði kviknað í Tesla-bifreið nokkrum klukkustundum áður.

Fátíðir brunar miðað við aðra

Ekki er þó svo að skilja að rafknúnar bifreiðar séu til sérstakra vandræða tölfræðilega séð þegar kemur að eldi í bifreiðum, þótt viðhafa þurfi sértækar aðgerðir til að drepa í þeim. Árin 2019 og 2020 og fyrstu fimm mánuði þessa árs kviknaði samtals í 59 rafknúnum bifreiðum í Noregi, miðað við tölfræði sem bílavefritið Motor hefur tekið saman.

Bíllinn sem kviknaði í á E39 í gær eftir árekstur. …
Bíllinn sem kviknaði í á E39 í gær eftir árekstur. Slökkvistarf tók óratíma, eldurinn kom upp klukkan 11:30 og var bíllinn að lokum dreginn burt og loks klukkan 15 var vatnsgámur kominn á svæðið sem var það sem dugði til. Ljósmynd/Vegfarandi

Á sama tímabili kom eldur upp í 2.334 bifreiðum knúnum jarðefnaeldsneyti í landinu, svo ljóst má vera að brunar í rafbílum eru þar aðeins dropi í haf, enda eru þeir enn ekki nema lítill hluti norskra ökutækja. Við lok síðasta árs gengu 12% bifreiða á norskum vegum fyrir rafmagni.

Brunatilfellin ellefu síðan 23. júní eru þó töluverður kippur upp á við, en í minnst einu, eða raunar þremur, tilfellanna leikur þó grunur á að um íkveikju hafi verið að ræða, þegar kviknaði í þremur rafbílum samtímis á Tøyen í Ósló í byrjun júlí.

Breyta búnaði og þjálfun

Surdal slökkviliðsstjóri segir að þótt eldur komi ekki upp í rafbílum oftar en öðrum bílum hljóti rafbílabrunarnir oft mun meiri athygli. Eitt sé þar umfjöllun fjölmiðla, en annað að slökkviliðsmenn landsins hafi þurft að setja sig í stellingar til að bregðast við brunum þessum.

„Seinustu fimm ár hefur athyglin verið mikil á þessari gerð bruna. Við höfum þurft að breyta hvort tveggja búnaði okkar og þjálfun miðað við nýjar aðstæður,“ segir hann. Eitt sé það mikla vatnsmagn sem þurfi að dæla yfir bílana, en einnig hefur slökkvilið brugðið á það ráð að hreinlega pakka rafbílunum inn í stór eldvarnateppi.

Svona er þetta nú gert. Hér er sama bifreið og …
Svona er þetta nú gert. Hér er sama bifreið og sést á fyrstu myndinni sett í bað og fékk að liggja þar í þrjá sólarhringa áður en öllu var talið óhætt. Ljóst er að þjálfun og búnaður norsks slökkviliðs þarf að taka mið af fjölgun rafbíla í landinu sem nú eru yfir helmingur allra nýskráðra einkabifreiða. Ljósmynd/Slökkviliðið í Ósló

Lokaúrræðið er svo vatnsgámurinn, aðferð sem Surdal segir einkum til komna af þeirri sífelldu hættu sem sé á að eldur kvikni á ný í rafhlöðunni. „Það er mjög árangursrík aðferð til að koma í veg fyrir að eldurinn blossi upp aftur, það getur gerst klukkustundum síðar.“

Slökkvilið beitti gámaaðferðinni til að mynda í Sarpsborg á fimmtudaginn og í Ósló fyrr í sumar. Í gær kviknaði svo í rafbíl á E39-brautinni í Vestur-Noregi í kjölfar árekstrar og brá slökkvilið þá á það ráð að flytja vatnsgám á vettvang og hífa logandi bílinn upp í hann, þar sem hann fær svo að hvíla í allt að þrjá sólarhringa.

NRK

NRKII (bruninn á E39)

Motor (brunatölfræði síðustu ára)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert