Ef smitum heldur áfram að fjölga í Þýskalandi gætu óbólusettir þurft að lúta nýjum reglum. Neikvætt veirupróf myndi þá ekki lengur jafngilda bólusetningarvottorði. Skrifstofustjóri Angelu Merkel greindi frá þessu í viðtali við þýska fréttablaðið Bild am Sonntag.
„Bólusettir munu njóta meira frelsis en þeir óbólusettu, það er morgunljóst,“ er haft eftir Helge Braun. Þjóðverjar þurfa í dag að sýna bólusetningarvottorð eða nýlegt neikvætt veirupróf til að komast á veitingastaði, í kvikmyndahús eða íþróttaleikvanga.
Ef smitum fjölgar frekar gæti þeim sem sýna fram á neikvætt vottorð brátt verið meinað aðgengi að þessum stöðum. Helge segir það skyldu ríkisins að vernda heilsu fólks. Í því felist að reka heilbrigðiskerfi sem þurfi ekki að seinka krabbameins- og liðskiptaaðgerðum til að hlúa að Covid-sjúklingum.
Þrátt fyrir fjölgun smita Delta-afbrigðisins í Þýskalandi segir heilbrigðisráðherra Þýskalands Jens Spahn enga þörf á takmörkunum eins og voru í vetur: „Svo lengi sem afbrigði hafa ekki áhrif á virkni bóluefna er engin þörf á aðgerðum samsvarandi þeim sem við sáum í vetur. Það er hvorki þörf á því né lagaleg stoð fyrir þeim.“