Nýja-Sjáland, Ísland, Bretland, Tasmanía og Írland eru bestu staðirnir til að dvelja á til þess að lifa af ef siðmenning heimsins hrynur. Þetta kemur fram í rannsókn sem fjallað er um á breska miðlinum Guardian.
Hrun siðmenningar gæti, að sögn rannsakenda, stafað af efnahagshruni, áhrifum loftslagsbreytinga, eyðileggingu náttúrunnar eða jafnvel vegna heimsfaraldurs.
Aðstæður í hverju landi fyrir sig voru metnar með tilliti til hæfni þeirra til að rækta mat fyrir þjóð sína, vernda landamæri sín og sjálfbærni í orkuframleiðslu og þá annarrar framleiðsluhæfni. Eyjar í tempraða beltinu með lítinn fólksfjölda komu best út úr þessari greiningu.
Rannsakendur segjast hafa fundið þá þætti sem þjóðir þurfa að bæta til þess að vera betur í stakk búnar til þess að takast á við svona aðstæður.
Það kom rannsakendum á óvart að Bretland kæmi svona vel út, enda er þjóðin stór og framleiðir ekki nema 50% af þeim matvælum sem hún neytir en ljóst er að landið býr yfir frekari tækifærum.
Nýja-Sjáland kom best út úr rannsókninni vegna jarðhita, mikillar dreifingar íbúa um eyjuna, vatnsafls og vegna þess hve öflugur landbúnaðurinn er þar í landi.