Óttast hrun heilbrigðiskerfisins í Japan

Beðið eftir skimun á Narita flugvellinum í Tokyo, Japan.
Beðið eftir skimun á Narita flugvellinum í Tokyo, Japan. AFP

Japönsku læknasamtökin óttast að heilbrigðiskerfið þar í landi hrynji haldi kórónuveirufaraldurinn áfram að láta að sér kveða.

Samtökin sendu út neyðarbeiðni til íbúa höfuðborgarinnar Tókýó um að gæta vel að sóttvörnum í þessari nýju bylgju sem nú ríður yfir landið.

Yfirmaður samtakanna, Tishio Nakagawa, ávarpaði þjóðina í sjónvarpsútsendingu á fimmtudag þar sem hún biðlaði til fólks að vinna fjarvinnu og að þeir sem ekki hefðu verið bólusettir létu bólusetja sig, að því er greint er frá í frétt CNN.

„Heilbrigðiskerfið gæti hrunið ef útbreiðsla smita heldur áfram,“ segir Nakagawa og bætir því við að róðurinn hjá heilbrigðisstarfsfólki í landinu hafi þyngst verulega í nýjustu bylgju faraldursins.

„Við verðum að reyna allt sem við getum til að koma í veg fyrir sprengingu í smitum.“

Þá impruðu samtökin einnig á mikilvægi þess að yfirvöld í landinu gerðu bólusetningar aðgengilegri fyrir almenning.

Nýr metfjöldi smita

Á fimmtudag greindust 3.856 manns með Covid-19 í Tókýó sem er nýr metfjöldi smita. Er þetta þriðja daginn í röð sem metfjöldi smita greinist í höfuðborginni. Á landsvísu greindust 10.385 smit og er það í fyrsta sinn sem smit í landinu fara yfir 10.000 síðan faraldurinn hófst. 

Þá eru 198 þeirra smita sem greinst hafa síðastliðna viku rakin til Ólympíuleikanna sem standa nú yfir í Tókýó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert