Fjórtán Ísraelar hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni þrátt fyrir að hafa fengið þrjá skammta af bóluefni gegn Covid-19, samkvæmt ísraelskum fjölmiðlum. Tveir þeirra hafa verið lagðir inn á sjúkrahús. Ekki er vitað fyrir víst hvort fólkið hafi smitast áður eða eftir að það fékk þriðja bóluefnaskammtinn en smitin greindust þó eftir að fólkið hafði fengið hann.
Þessi gögn duga vísindamönnum ekki til að draga almennar ályktanir um árangurinn sem hlýst af því að gefa þriðja skammtinn af bóluefninu til að berjast við útbreiðslu Delta-afbrigðis veirunnar.
Ellefu af umræddum 14 einstaklingum eru eldri en 60 ára, hinir þrír eru ónæmisbældir en yngri en 60 ára gamlir.
Um 420.000 manns hafa fengið þriðja skammtinn af bóluefni gegn Covid-19 í Ísrael. Bólusetning með þriðja skammti hófst í síðustu viku.
Í skoðun er að gefa viðkvæmum hópum þriðja skammtinn af bóluefninu hér á landi.