Telja sig hafa fundið Trójuhestinn

Fornleifafræðingarnir hafa verið við fornleifagröft í Hisarlik-hæðum í Tyrklandi, þar …
Fornleifafræðingarnir hafa verið við fornleifagröft í Hisarlik-hæðum í Tyrklandi, þar sem hin sögufræga Trójuborg var forðum. Myndin er þó frá öðrum fornleifagreftri.

Tyrkneskir fornleifafræðingar telja sig hafa fundið leifar af hinum sögufræga Trójuhesti. Fornleifafræðingarnir hafa verið við fornleifagröft í Hisarlik-hæðum í Tyrklandi, þar sem hin sögufræga Trójuborg var forðum. Þar hafa þeir fundið leifar af stóru viðarvirki sem þeir telja vera leifarnar af Trójuhestinum, að því er kemur fram í frétt Greek Reporter.

Um er að ræða fjölda viðarplanka og allt að 15 metra af burðarspýtum. Þegar þessu var raðað saman kom í ljós mannvirki með sérstaka lögun en viðarvirkið er talið vera innan úr Trójuhestinum.  

Herkænska forngrikkja

Það hefur verið talið af mörgum að sagan af Trójuhestinum hafi verið skáldskapur og að atburðurinn hafi aldrei raunverulega átt sér stað.

Sagan hermir að Trójuhesturinn hafi verið smíðaður af Grikkjum í lok Trójustríðsins. Hesturinn hafi verið smíðaður til þess að Grikkir kæmust inn fyrir borgarmúr Tróju með kænsku.

Þeir hafi komið hestinum fyrir við borgarmúrinn og falið sig inni í holu viðarvirkinu. Trójumenn héldu að um gjöf væri að ræða og drógu hestinn því sjálfir inn um borgarhliðið. Þá hafi Grikkir brotist út úr hestinum og lagt undir sig borgina.

Allar greiningar bendi til þess

Fornleifafræðingarnir fundu einnig plötu úr bronsi sem á stendur „Fyrir heimkomu þeirra, Grikkir tileinka þessa gjöf Aþenu.“ Í epísku ljóði Quintusar Smyrnaeusar um Trójustríðið er vísað sérstaklega í brons plötu með þessari sömu áletrun.  Styður þetta enn frekar grun fornleifafræðinganna um að leifarnar tilheyri Trjójuhestinum.

Fornleifafræðingarnir sem eru í forsvari fyrir hópinn, Christine Morris og Chris Wilson, prófessorar við háskólann í Boston, segjast nánast örugg um að um Trójuhestinn sé að ræða. Allar greiningar bendi til þess að leifarnar séu frá tólftu eða elleftu öld fyrir Krist, en það er einmitt tímabilið sem Trójustríðið á að hafa átt sér stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka