„Einhversstaðar verður að rigna“

Miklir gróðureldar hafa geisað um bæði sunnanverða Evrópu og Vesturströnd Bandaríkjanna síðustu vikur. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að um afleiðingar loftslagsbreytinga að ræða að öllum líkindum. „Umfang eldanna er það sem er óvenjulegt,“ segir hann.

Gríðarlegur hiti er á Ítalíu.
Gríðarlegur hiti er á Ítalíu. AFP

Í því sambandi nefnir Einar eldana í Síberíu. Hann segir þá elda vera þrálata og ná yfir mjög stórt svæði. Tæp­lega 3,4 millj­ón­ir hekt­ara standa þar í ljós­um log­um og virðist ekkert lát vera á. „Það er búið að vera þurrt og hlýtt svo rosalega lengi.“

Í Síberíu hafa brunnið tæp­lega 3,4 millj­ón­ir hekt­ara.
Í Síberíu hafa brunnið tæp­lega 3,4 millj­ón­ir hekt­ara. AFP

„Það er ekki óvenjulegt að það skuli koma heitt loft frá Afríku yfir Miðjarðarhafið og Suður-Evrópu, það hefur oft gerst áður en það er hlýrra en maður sér alla jafna,“ segir Einar en hitamet var slegið í Evrópu á Sikiley í gær þar sem hiti náði 48,8 gráðum. 

Lagskipt kerfi

„Það má eiginlega segja að þetta er frekar lagskipt ef við lítum á þetta sem einhver lög. Þau eru ekki lóðrétt heldur frekar lárétt, frá suðri til norðurs. Það eru þessi óskaplega miklu hitar í Norður-Afríku og á Miðjarðarhafinu sem teygja sig inn í Suður-Evrópu. Síðan er annað svæði þar sem eru mikil hlýindi en það nær frá Nýfundnalandi og teygir sig hingað til Íslands. Þarna á milli er hins vegar belti með meiri óróleika þar sem hiti er jafnvel undir meðallagi,“ segir Einar og nefnir að það svæði nái yfir Bretlandseyjar og sunnanverð Norðurlönd.

Á Grikklandi geisa miklir gróðureldar.
Á Grikklandi geisa miklir gróðureldar. AFP

Mun leiða af sér miklar rigningar

Einar segir að þessi mikli hiti og þurrkur muni leiða af sér rigningar. „Það safnast saman raki í lofthjúpnum norðarlega. Maður er ekki enn farinn að sjá neinar stórrigningar en það kemur að því. Rakinn finnur sér leið til þess að losna úr loftinu,“ segir Einar og nefnir að engin leið sé til að spá um það hvar rigningin kemur niður.

Þá nefnir Einar að rakinn í loftinu hafi aukist vegna þess að yfirborðshiti sjávar hefur hækkað vegna loftslagsbreytinga. „Þá gufar meira upp og því er hætt við því að við munum sjá mikla úrkomu með haustinu líkt og við sjáum þennan mikla hita núna. Einhversstaðar verður að rigna, það gefur auga leið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka