Júlímánuður var hlýjasti mánuður jarðar síðan mælingar hófust fyrir 142 árum. Samkvæmt nýjum tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) var meðalhitinn yfir landi og sjó 0,93 gráðum hærri en meðaltal 20. aldar sem var 15,8 gráður.
„Júlí er vanalega hlýjasti mánuðurinn á jörðinni en júlí 2021 fór fram úr sér sem hlýjasti mánuður sem hefur verið skráður. Þetta nýja hitamet bætist við hin óhugnanlegu og neikvæðu áhrif sem loftslagsbreytingar hafa,“ segir Rick Spinard stjórnandi NOAA.
Í Evrópu og Asíu var júlímánuður sá hlýjasti frá upphafi mælinga en í Ástralíu var hann fjórði hlýjasti og í Norður-Ameríku var hann sjötti hlýjasti.