Segir líklegt að veiran hafi lekið af rannsóknastofu

Maður liggur látinn á götu úti í Wuhan, 30. janúar …
Maður liggur látinn á götu úti í Wuhan, 30. janúar 2020. Einu og hálfu ári síðar er ekkert lát á útbreiðslu veirunnar. AFP

Kínverskur vísindamaður gæti hafa hrundið af stað faraldri kórónuveirunnar, eftir að hafa sýkst af henni þar sem hann safnaði sýnum úr leðurblökum.

Frá þessu greinir dr. Peter Embarek, sem leiðir hóp á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem rannsakar hvernig faraldurinn hófst.

Í heimildarmynd, sem danska sjónvarpsstöðin TV2 sýndi í þessari viku, segir Embarek það „líklega kenningu“ að starfsmaður rannsóknastofu í Kína hafi borið veiruna með sér til manna úr starfi sínu.

Dr. Peter Embarek fer fyrir rannsóknahópnum.
Dr. Peter Embarek fer fyrir rannsóknahópnum. AFP

Meinað að mæla með rannsókn á mögulegum leka

Vitað er að vísindamenn við Veirufræðistofnunina í Wuhan unnu með kórónuveirur úr leðurblökum á rannsóknastofum í borginni, en kínversk yfirvöld hafa verið treg til að veita nánari upplýsingar um þær rannsóknir.

Embarek segir rannsakendur WHO hafa neyðst til að komast að þeirri niðurstöðu að leki frá rannsóknastofu væri „ákaflega ólíklegur“ í opinberri skýrslu sinni, til þess að forðast frekari ágreining við kínversk stjórnvöld.

Í raun segir hann Kína hafa ýtt rannsóknahópnum út í öngstræti hvað þetta varðar. Kínversk stjórnvöld hafi einungis leyft hópnum að minnast í skýrslunni á möguleikann á leka frá rannsóknastofu, þá og því aðeins að ekki væri mælt með því að rannsaka þann möguleika nánar.

Unnið hefur verið með kórónuveirur úr leðurblökum í Wuhan.
Unnið hefur verið með kórónuveirur úr leðurblökum í Wuhan. AFP

„Teljum þá kenningu líklega“

„Kollegi minn samþykkti að við gætum minnst á [möguleikann á rannsóknastofulekanum] í skýrslunni, gegn því skilyrði að við myndum ekki mæla með því að sú kenning yrði skoðuð sérstaklega. Við myndum bara láta staðar numið þar.“

Spurður hvort kínversk yfirvöld hefðu samþykkt skýrsluna án þess að þessi möguleiki yrði sagður „ákaflega ólíklegur“, segir Embarek:

„Það hefði líklega krafist frekari umræðna og röksemdafærslna með og á móti, sem ég taldi að væri ekki þess virði.“

Hann segir enn fremur að mögulegt sé að starfsmaður rannsóknastofu hafi sýkst við rannsóknir á vettvangi.

„Við teljum þá kenningu líklega.“

Sjúklingur fluttur á sjúkrahús Rauða krossins í Wuhan, 25. janúar …
Sjúklingur fluttur á sjúkrahús Rauða krossins í Wuhan, 25. janúar 2020. AFP

Kína neitar annarri rannsókn

Sífellt meira er þrýst á kínversk stjórnvöld um að birta nánari upplýsingar um starf rannsóknastofanna í Wuhan og leyfa gagngera athugun á því hvernig faraldurinn fór af stað.

Búist er við að nefnd, sem skipuð var af Joe Biden Bandaríkjaforseta til að kanna nánar möguleikann á rannsóknastofuleka, skili skýrslu sinni í lok ágúst.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin kallaði einnig eftir ítarlegri rannsókn í síðasta mánuði, en Kína neitaði að verða við því, að því er fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Telegraph um málið.

Keypt inn í stórvöruverslun í Wuhan fyrr í þessum mánuði.
Keypt inn í stórvöruverslun í Wuhan fyrr í þessum mánuði. AFP

„Við fluttum 2. desember“

Fram kemur í heimildarmyndinni að Embarek hafi haft áhyggjur af annarri rannsóknastofu, á vegum Sóttvarnastofnunar Wuhan, sem flutti starfsstöðvar sínar síðla árs 2019 í húsnæði nálægt markaðnum þar sem faraldurinn blossaði fyrst upp.

„Það sem veldur mér meiri áhyggjum er rannsóknastofan sem er nærri markaðnum, því þar var einnig verið að vinna með kórónuveirur, mögulega án þess að hafa sömu sérþekkingu eða öryggiskröfur.

Þegar þau sýndu okkur starfsstöðina þá fannst mér það allt líta út eins og nýtt. Ég spurði hversu gömul rannsóknastofan væri og þau sögðu: „Við fluttum 2. desember.“

Það var þá sem þetta byrjaði allt saman. Við vitum að þegar þú færir rannsóknastofu þá truflarðu alla verkferla. Þú þarft að færa veirusafnið og sýnin. Þess vegna eru það tímabil og sú rannsóknastofa áhugaverð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert