Ný afbrigði gætu hægt á baráttunni um heilt ár

Delta-afbrigði kórónuveirunnar hefur valdið verulegum usla hérlendis sem og víðar. …
Delta-afbrigði kórónuveirunnar hefur valdið verulegum usla hérlendis sem og víðar. Bóluefnin virðast ráða verr við það en fyrri afbrigði veirunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðgjafarhópur breskra stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum telur raunhæfan möguleika á því að afbrigði verði til sem ná að leika á bóluefni gegn Covid-19 og komast fram hjá ónæmissvarinu sem þau skapa. Slík afbrigði gætu, að mati ráðgjafarhópsins, hægt á baráttunni í að minnsta kosti heilt ár. Breskir vísindamenn kalla nú eftir viðbragðsáætlunum.

Guardian greinir frá.

Í skýrslu sem Sage, ráðgjafarhópur breskra stjórnvalda í faraldrinum, gaf út nýverið kemur fram að tilkoma afbrigða sem geta forðast varnir bóluefnanna sé „raunhæfur möguleiki“. Í skýrslunni segist Sage styðja áframhaldandi vinnu við framleiðslu nýrra bóluefna sem vernda fólk betur fyrir kórónuveirusmitum en þau bóluefni sem nú eru notuð. Þá hvetur Sage bresk stjórnvöld til þess að koma á rannsóknarstofu sem spáir fyrir um þróun afbrigða. 

Erum með forskot

Graham Medley, prófessor sem situr í Sage og leiðir áætlanahóp stjórnvalda í faraldrinum, sagði að við áætlanagerð þyrfti að taka möguleikann á því að erfið afbrigði komi fram mjög alvarlega. Það gæti hægt verulega á baráttu heimsbyggðarinnar við veiruna. 

„Nýtt afbrigði sem getur komist fram hjá ónæmi fólks væri í raun eins og ný veira til þess að takast á við,“ sagði Graham. 

„Við höfum þó það forskot að við vitum að við getum skapað bóluefni til þess að takast á við veiruna nokkuð fljótt. Það slæma er samt sem áður að við yrðum þá stödd í nákvæmlega sömu stöðu og fyrir ári, eftir því hversu mikil áhrif núverandi ónæmi hefur á nýtt afbrigði. Vonandi verður þróun veirunnar hæg þannig að þegar erfiðari afbrigði koma fram nái þau bara mjög takmarkaðri útbreiðslu.“

Ólíklegt að þau gætu komist algjörlega fram hjá vörnum líkamans

Marc Baguelin, sem er í viðbragðsteymi Imperial College við kórónuveirufaraldrinum, sagði að það væri mikilvægt að koma í veg fyrir tilurð nýrra afbrigða sem gætu komist hjá ónæmi „þar sem þau gætu leitt til þess að smitbylgjur framtíðarinnar yrðu stærri en þær sem við höfum upplifað hingað til“.

„Það er ólíklegt að slík afbrigði geti forðast algjörlega allt ónæmi fólks sem hefur fengið bólusetningu eða hefur áður smitast af kórónuveirunni,“ sagði Baguelin. 

„Bólusettir, og þeir sem hafa smitast áður, ættu að hafa í það minnsta smá ónæmi gegn nýjum afbrigðum. Í það minnsta hvað varðar alvarleg veikindi og dauða. Mér finnst líklegast að mögulegt verði að aðlaga núverandi bóluefni nýjum afbrigðum. En það gæti tekið marga mánuði sem gæti orðið til þess að við þyrftum að koma aftur á takmörkunum ef ný afbrigði fara að ógna heilsu fólks.“

Á mánudag verða frekari afléttingar í Englandi þegar bólusettir þurfa ekki lengur að fara í sóttkví ef þeir hafa verið berskjaldaðir fyrir smiti. Hið sama mun eiga við um þá sem eru yngri en 18 ára. Báðum hópum verður ráðlagt að fara í sýnatöku í staðinn en það verður þó ekki skylda. Daglega hafa um 30.000 kórónuveirusmit greinst í Bretlandi undanfarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert