Að minnsta kosti þrír voru skotnir til bana í morgun á farþegasvæði á alþjóðaflugvellinum í Kabúl þar sem þúsundir Afgana freista þess að komast úr landi eftir yfirtöku Talíbana. Sjónarvottar sögðu frá því í samtali við Wall Street Journal að blóðug lík hafi legið á jörðinni rétt fyrir utan flugstöðvarbygginguna.
Reuters segir að tala látinna sé komin upp í að minnsta kosti fimm. Fólkið hafi týnt lífi þegar hundruð reyndu að komast um borð í rýmingarflug. Sjónarvottur sagði í samtali við Reuters að fimm lík hafi verið borin frá flugvellinum.
The sheer helplessness at Kabul airport. It’s heartbreaking! #KabulHasFallen pic.twitter.com/brA3WRdPp8
— Ahmer Khan (@ahmermkhan) August 16, 2021
Bandaríski herinn hefur tekið yfir öryggisgæslu á flugvellinum en hafði ekki brugðist við fréttum af dauðsföllunum þegar frétt WSJ var birt. Herinn vinnur að því að flytja erlenda diplómata og borgara úr landi. Rýmingarflugið er framkvæmt á sérstakri hernaðarhlið flugvallarins.
Fregnir hafa borist af því að bandarískir hermenn hafi skotið viðvörunarskotum þegar þeir reyndu að hafa hemil á mannfjöldanum.
Öllum almennum farþegaflugferðum frá flugstöðinni var aflýst í morgun. Þúsundir hafa leitað að leið út úr landinu.
Talíbanarnir tóku yfir forsetahöllina eftir að forseti landsins, Ashraf Ghani, flúði landið í gær. Ótrúlega fljótt fall ríkisstjórnarinnar vakti ótta og örvinglun á meðal almennra borgara. Á einungis tíu dögum hafa Talíbanar náð að sölsa til sín svo til öll völd í Afganistan.