Afganskar fréttakonur brustu í grát

Sadid (t.v.) og Karimi (t.h.) eru augljóslega þreyttar á ástandinu …
Sadid (t.v.) og Karimi (t.h.) eru augljóslega þreyttar á ástandinu í Afganistan. Skjáskot

Nazira Karimi, afgönsk fréttakona sem býr í Bandaríkjunum, brast í grát þegar hún setti fram spurningu á fréttamannafundi í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna á mánudag. Karimi tjáði tilfinningar sínar vegna yfirtöku talíbana í Afganistan á sama tíma og hún fjarlægði andlitsgrímu með afganska fánanum. 

Áður en Karimi flutti til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni og settist þar að sem flóttamaður var fjölskylda hennar pyntuð af talíbönum.

„Ég er í miklu uppnámi í dag vegna þess að afganskar konur bjuggust ekki við því að talíbanarnir myndu koma. Þeir tóku fánann minn, þetta er minn fáni,“ sagði Karimi. „Þeir settu fánann sinn upp. Allir eru í áfalli, sérstaklega konur. Hvar er forsetinn minn? Hann ætti að svara spurningum fólksins,“ spurði Karimi. 

Atburðirnir „harmleikur“

Annað svipað tilvik kom upp á fréttamannafundi NATO í gær þar sem Lailuma Sadid, afgönsk fréttakona sem starfar fyrir morgunblaðið í Brussel, brast í grát þegar hún talaði um stöðu kvenna í Afganistan. Hún sagði óskiljanlegt að NATO og Evrópusambandinu hefði ekki tekist að berjast á móti talíbönum, sérstaklega í ljósi þess að þau hefðu áður tekist á við nasista og fleiri hættuleg öfl. Sadid grátbað ríki heims um að viðurkenna talíbana ekki sem ný stjórnvöld í Afganistan nema að mjög ströngum skilyrðum uppfylltum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, svaraði Sadid með því að hann skildi það sem hún væri að ganga í gegnum. Stoltenberg sagði að NATO myndi halda áfram að fylgjast með stöðunni og sjá til þess að talíbanar virtu mannréttindi. Hann sagði atburðina í Afganistan harmleik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert