Stjórnvöld í Bólivíu segja skógarelda sem þar geisa hafa verið kveikta af ásettu ráði. Umhverfissinnar kenna fyrrverandi forseta landsins um.
Skógareldarnir hafa brennt um 600 þúsund hektara af landi í austurhluta Bólivíu á þessu ári, þar af 200 þúsund síðustu tvo daga, segja þarlend stjórnvöld.
Í gær geisuðu tuttugu eldar og þar af sjö á vernduðum svæðum. Flestir eldanna eru í skóginum Chiquitania, sem liggur meðal annars á milli Amazon-regnskógarins og Pantanal-votlendisins, stærsta votlendissvæðis jarðar.
Slökkviliðsmenn í sjálfboðaliðastarfi, skógarverðir og um 1.800 starfsmenn hersins hjálpa til við að bæla eldana niður.
Þrátt fyrir skort á aðstoð getur Bólivía ekki beðið nágrannalönd um aðstoð nema þau lýsi yfir neyðarástandi en því má einungis lýsa yfir ef stjórnvöld klára fjármagn sitt sem ætlað er til notkunar í baráttu við skógarelda.
Umhverfissinnar kenna fyrrverandi forseta landsins um, hinum vinstrisinnaða Evo Morales, en hann hvatti til brennslu skóga þar sem hann taldi æskilegt að nýta landið fyrir landbúnað.
Í Bólivíu er löglegt að brenna allt að 20 hektara af skóglendi í maí og júlí, eftir að regntímabilinu lýkur. Refsing fyrir ólöglega elda er einn bandarískur dollari fyrir hvern hektara, sem jafngildir 127 íslenskum krónum. Fyrir stóra elda getur refsingin verið allt að þriggja ára fangelsisdómur.