Óbólusettur kennari smitaði 26

Óbólusettur bandarískur grunnskólakennari smitaði að minnsta kosti 26.
Óbólusettur bandarískur grunnskólakennari smitaði að minnsta kosti 26. AFP

Óbólusettur grunnskólakennari í úthverfi San Francisco-borg í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum smitaði að minnsta kosti 26 einstaklinga af Delta-afbrigði kórónuveirunnar, þar af tólf nemendur sína.

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) segir tilfellið undirstrika hversu mikilvægt sé að bólusetja starfsfólk skóla til þess að vernda ung börn, sem hafa ekki aldur til að fá bóluefni, gegn smiti. 

Kennarinn sinnti félagsstörfum 13. til 16. maí og fékk síðan einkenni 19. maí en tók ekki Covid-próf fyrr en 21. maí þar sem hann taldi að um ofnæmisviðbrögð væri að ræða. 

„Á meðan á þessu tímabili stóð las kennarinn upphátt fyrir nemendur án þess að bera grímu þrátt fyrir grímuskyldu skólans innandyra,“ segir í rannsókn CDC.

Nemendurnir yngri en tólf ára

Í kjölfarið greindust tólf nemendur kennarans, öll undir tólf ára aldri. Átta af tíu nemendum sem sátu í fremstu röð greindust jákvæðir og þrír af fjórtán í öftustu röð greindust einnig jákvæðir.

Þá greindust sex nemendur í öðrum bekk einnig smitaðir og tengdust öll þau smit kennaranum. Til viðbótar smituðust átta aðrir, foreldrar og systkini nemendanna. CDC telur að jafnvel fleiri hafi smitast þar sem að enginn var skyldugur til þess að taka Covid-próf.

Einkenni þessara 26 voru væg til miðlungs og þurfti enginn að leggjast inn á spítala. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka