Delta veldur ekki alvarlegri veikindum hjá börnum

AFP

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að Delta-afbrigði kórónuveirunnar valdi ekki alvarlegri veikindum hjá börnum en önnur afbrigði veirunnar. Rannsóknin var unnin af bandarísku sóttvarnastofnunni (CDC).

Innlögnum barna á sjúkrahús vegna Covid-19 hefur fjölgað til muna í Bandaríkjunum síðan Delta-afbrigðið svokallaða varð ríkjandi afbrigði þar í landi.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að óbólusettir unglingar hafi verið meira en 10 sinnum líklegri að leggjast inn á spítala enn bólusettir unglingar.

Vikulegar innlagnir barna á aldrinum 0 til 17 ára voru lægstar á milli 12.júní og 3.júlí, eða 0,3 á hverja 100.000 íbúa. En voru hæstar í vikunni sem lauk 14.ágúst, eða 1,4 á hverja 100.000 íbúa sem er tæplega fimmföldun á innlögnum.

Innlagnir fleiri þegar Alpha-afbrigðið var ríkjandi

Hæsta innlagnatíðnin hjá börnum var 1,5 á hverja 100.000 íbúa og var þeim toppi náð í janúar þegar Alpha-afbrigðið var ríkjandi afbrigði.

Eftir að hafa skoðað 3.116 sjúkraskrár áður en Delta varð ríkjandi afbrigðið og bera þær saman við 164 sjúkraskrár á meðan Delta hefur verið ríkjandi afbrigði fannst enginn marktæk tölfræði sem studdi áhyggjur vísindamanna. Sagt er í rannsókninni að það þurfi að safna meiri gögnum til þess að geta stutt niðurstöðurnar betur.

Rannsóknin sýndi einnig fram á mikilvægi bólusetninga gegn Covid-19 þegar kemur að því að verja fólk gegn alvarlegum veikindum.

Á tímabilinu 20.júní til 31.júlí, af þeim 68 unglingum sem voru lagðir inn á spítala sem rannsakendur fylgdust með voru þar af 59 óbólusettir, hjá fimm var bólusetning hafin og fjórir voru fullbólusettir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert