Allt frá 22 þúsund upp í 48 þúsund almennir borgarar hafa látist í dróna- og loftárásum Bandaríkjanna síðan hryðjuverkaárásirnar voru gerðar í Bandaríkjunum 11. september árið 2001. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hóps sem greinir skaðræði á almennum borgurum, Airwars.
Skýrslan er byggð á gögnum bandaríska hersins sem hefur gert tæplega 100 þúsund loftárásir síðan árið 2001.
Skýrslan kemur út rétt áður en 20 ár eru liðin frá því að hryðjuverkamenn með tengsl við hryðjuverkasamtökin al-Qaida gerðu árás á Bandaríkin. Flugvélum var flogið á tvíburaturnana í New York-borg og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Washington, Pentagon.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að binda enda á „endalausu stríðin“ en síðan hann tók við embættinu hefur loftárásum Bandaríkjanna fækkað.
Loftárásirnar hafa verið gerðar á Ríki íslams í Sýrlandi og vegna átakanna í Írak og Afganistan. Þá hafa árásirnar einnig verið gerðar á öfgahópa í Jemen, Sómalíu, Pakistan og Líbíu.
Samkvæmt skýrslu Airwars voru flestar árásir gerðar árið 2003 þegar að minnsta kosti 5.500 almennir borgarar létu lífið. Nánast allar árásirnar það árið voru gerðar í Íraksstríðinu.
Næstflestar voru gerðar árið 2017 þegar um fimm þúsund almennir borgarar létu lífið í árásum sem gerðar voru í Írak og Sýrlandi.