Konur af austrænum uppruna vinni fyrir bótunum

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Hluti innflytjenda í Danmörku verður nú krafinn um að vinna 37 klukkustunda vinnuviku til þess að eiga rétt á bótum úr danska velferðarkerfinu. Þannig munu dönsk stjórnvöld nú krefja hvern þann innflytjenda, sem hefur þegið bætur í þrjú eða fjögur ár og hefur ekki náð tilætluðum tökum á danskri tungu, að vinna 37 klukkustundir á viku.

Í frétt BBC er haft eftir Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, að þessari lagabreytingu yrði sérstaklega beint að konum, sem ekki eru af vestrænu bergi brotnar, innan bótakerfisins.

Danir hafa á undanförnum árum hert innflytjendalöggjöf sína til muna og er hún með þeim hörðustu sem finnast meðal Evrópuríkja. Markmið danskra stjórnvalda er að eftir fáein ár verði umsóknir um hæli í landinu alls 0 talsins.

Fá að tína upp sígarettustubba

Stjórnvöld segja að áðurnefnd lagabreyting sé til þess fallin að hvetja innflytjendur til þess að aðlagast dönsku samfélagi. Á hinn bóginn hafa margir sagt að nýju lögin séu misráðin og ósanngjörn.

„Við vildum innleiða nýja nálgun sem hverfist um að fólk finni til skyldu til þess að leggja til samfélagsins og koma að gagni og ef það finnur ekki starf þá verður það að vinna fyrir bótatékkanum,“ segir Frederiksen og bætir við:

„Í of mörg ár höfum við gert mörgum óleik með því að krefjast ekki nægilega mikils af innflytjendum.“

Samkvæmt hagtölum danskra stjórnvalda eru 60% kvenna frá Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og Tyrklandi án atvinnu.

Atvinnumálaráðherra Danmerkur, Peter Hummelgaard, segir að meðal þeirra starfa sem þessum konum bjóðist, með tilkomu nýju laganna, verði að tína upp sígarettustubba.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert