Læsa 15.000 rafhlaupahjólum í Ósló

Rafskútur bíða knapa sinna við Aker-bryggju í miðborg Óslóar blíðviðrisdag …
Rafskútur bíða knapa sinna við Aker-bryggju í miðborg Óslóar blíðviðrisdag einn í júní. Í gær tóku nýjar reglur gildi og mega leigurnar tólf í Ósló nú aðeins hafa 667 virkar rafskútur hver í leigu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fimmtán þúsund rafhlaupahjólum, eða rafskútum sem svo hafa gjarnan verið nefndar, var læst í gærkvöldi á götum Óslóar í Noregi og eru hjólin því ónothæf vegfarendum. Á miðnætti í gær tóku nýjar reglur borgarinnar gildi sem kveða á um að tólf rekstraraðilar slíkra farartækja megi einungis hafa í virkri leigu 667 rafhlaupahjól hver.

Fjöldi hjóla á vegum fyrirtækjanna er alls 23.000 í höfuðstaðnum en verða nú eingöngu 8.000 þeirra nothæf, að minnsta kosti þar til dómur fellur í máli sem þrjár stærstu hjólaleigurnar, Tier, Voi og Ryde, hafa höfðað gegn borgaryfirvöldum í von um að fá nýju reglurnar dæmdar ólögmætar.

Ill tíðindi fyrir notendur

Gengu forsvarsmenn téðra fyrirtækja á fund héraðsdómara og beiddust þess að Héraðsdómur Óslóar gæfi út bráðabirgðalögbann við því að reglur borgarinnar tækju gildi þar til dómur félli í málinu, en gengu þar bónleiðir til búðar og tóku reglurnar því gildi í gær. Er þeim hjólaleiguforkólfum þó tækt að kæra neitunina til Lögmannsréttar Borgarþings en ekki er ljóst hvort þeir hyggjast gera það.

„Við vorum að fá úrskurðinn í hendur og munum nú taka okkur tíma til að setja okkur inn í hann,“ segir Christina Moe Gjerde hjá Voi í SMS-skeyti til NTB-fréttastofunnar. „Þetta eru ill tíðindi fyrir mörg hundruð þúsund notendur í Ósló,“ ritar hún þar enn fremur.

„Þetta gleður mig mjög. Gríðarlegur fjöldi rafmagnshlaupahjóla í borginni hefur skapað veruleg vandamál fyrir fólk að komast leiðar sinnar,“ segir Sirin Stav, borgarfulltrúi umhverfis- og samgöngumála í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Læknum nóg boðið

Mikið hefur verið rætt um þennan nýja ferðamáta síðustu misseri og er þess skemmst að minnast frá í sumar þegar lækn­ar á slysa­varðstof­um Há­skóla­sjúkra­húss­ins í Ósló, sem þrjú sjúkra­hús til­heyra, rituðu for­svars­mönn­um raf­skútu­leiga borg­ar­inn­ar bæna­skjal og hvöttu þá til að stöðva þá var­göld sem að mati læknanna ríkti á göt­um Ósló­ar um næt­ur með því að loka á notk­un far­ar­tækj­anna frá klukk­an 23 til fimm að morgni, en þá höfðu á fimmta hundrað slys orðið í tengslum við rafskútunotkun í júnímánuði einum og voru níu prósent þeirra alvarleg.

Geir Atle Paulsen er Óslóarbúi sem hefur gjarnan notfært sér hina rafknúnu reiðskjóta til að komast leiðar sinnar. „Mér finnst þetta allt í lagi [nýju reglurnar] en þeim fylgir viss áskorun svo málið hefur tvær hliðar. Með þessu verður þó líklega minna um níðingsakstur á gangstéttum og götum og það finnst mér gott,“ segir Paulsen sem nú hyggst draga fram reiðhjól sitt á nýjan leik.

Pirruð að leita hjóls

Þrátt fyrir að 15.000 hjól hafi nú verið gerð óvirk notendum standa öll hjólin enn um götur og torg Óslóar börnum og hröfnum að leik og vita væntanlegir notendur ekki hver eru læst og hver ekki. „Nú fer ég að verða sein svo ég þarf að fara að finna hjól,“ sagði Cathrine Haave önug þegar NRK ræddi við hana á götu í morgun þar sem hún hafði reynt að virkja þrjú hjól án þess að hafa erindi sem erfiði.

Haave játar að slysatíðni tengd hjólunum hafi verið um of en kveður þau ákaflega heppilegan valkost við önnur samgöngutæki, því sé ekki hægt að neita.

Forvígismenn rafskútuleiganna hafa frest fram til miðvikudags í næstu viku til að fjarlægja læstu hjólin af götunum en samkvæmt nýjum reglum ná stæðareglur norskra umferðarlaga nú einnig yfir rafmagnshlaupahjólin og má lögregla, og eftir atvikum aðrir til þess bærir aðilar, fjarlægja þau rétt eins og þegar bifreiðar eru dregnar í burtu.

NRK

VG

E24 (næturlokun hjóla var reynd í júlí)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert