Orkuskipti bresku ríkisstjórnarinnar yfir í umhverfisvænna eldsneyti átti stóran þátt í eldsneytiskreppunni sem nú er uppi í Bretlandi, að því er talsmenn iðnaðarins greina frá.
Að sögn söluaðila hafi þeir þegar hafist handa við að tæma eldsneytistankana eins hratt og þeir gátu vegna skiptanna yfir í E10 eldsneyti þegar oflætskaup á eldsneyti hafi skyndilega riðið yfir landann sem tæmdi fljótlega þær eldsneytisbirgðir sem eftir voru.
Þrátt fyrir viðvaranir um yfirvofandi hægagang í eldsneytisflutningi vegna flækjustigs við fraktflutninga vegna Brexit og skorts á vörubílstjórum hefur flutningur á eldsneyti til bensínstöðva verið stöðugur yfir sumarið og út allan septembermánuð, samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í gær.
Samt sem áður hafi varabirgðir eldsneytis í geymslu minnkað um alllt að fjórðung eftir að ríkisstjórnin tilkynnti að hið umhverfisvænna E10 eldsneyti kæmi i stað hins hefðbundna blýlausa E5 eldsneytis þann 1. september.
Þegar ökumenn fóru í örvæntingu sinni að kaupa eldsneyti fjórum dögum síðar náðu bensínstöðvar víða um landið ekki að anna eftirspurn.
Gögnin sýni að orkuskipti ríkisstjórnarinnar yfir í umhverfisvænna eldsneyti hafi óvart valdið skort á eldsneyti í landinu, að sögn Brian Madderson, formanns Samtaka eldsneytisbirgja í Bretlandi.
„Ég kenni ríkisstjórninni ekki um en orkuskiptin ullu því klárlega að við náðum ekki að anna aukinni eftirspurn.“
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að ráðast í orkuskipti var ætlað að vera skref í áttina að því að ná kolefnishlutleysi í Bretlandi fyrir árið 2030.
Smærri bensínstöðvar sem kaupa sjaldnar eldsneyti hafi fundið mest fyrir eldsneytisskortinum í kjölfar orkuskiptana, að sögn Simon Williams, talsmanns RAC, Samtaka bifreiðaeigenda í Bretlandi.
Talsmaður bresku samgöngudeildarinnar vill þó meina að engar vísbendingar séu um að tengsl séu á milli orkuskiptanna og eldsneytiskortsins í landinu.
„Vandinn sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarnar vikur stafar af aukinni eftirspurn eftir eldsneyti vegna óvenjulegrar neytendahegðunar.
Samkvæmt löggjöf ríkisstjórnarinnar um orkuskiptin geta eldsneytisbirgjar selt núverandi birgðir af E5 eldsneyti til 1. nóvember þannig það var engin þörf á að tæma geymslutankana. Þessi tímarammi var ræddur fram og til baka og samþykktur af hagsmunaaðilum.“