Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt erindi á COP26 loftslagsráðstefnunni í dag þar sem hann sagði hið risavaxna verkefni sem væri fyrir höndum í baráttunni við loftslagsvána væri í reynd mikið tækifæri fyrir hagkerfi heimsins.
Biden er nýkominn frá Vatíkaninu þar sem hann fundaði meðal annars með Emmanuel Macron og Frans páfa en er núna mættur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
„Innan í þessum ört versnandi hamförum sem eru að eiga sér stað sé ég rosaleg tækifæri. Ekki bara fyrir Bandaríkin heldur fyrir okkur öll,“ sagði hann á ráðstefnunni í dag.
Hann lofaði því að Bandaríkin myndu láta kné fylgja kviði í þessum efnum. Síðan Biden tók við varð mikil stefnubreyting í utanríkis- og loftsslagsáherslum Bandaríkjanna:
„Bandaríkin eru ekki mætt hingað til þess að taka þátt heldur er ætlunin að verða leiðandi afl. Ég veit að það hefur ekki alltaf verið tilfellið og þess vegna er mín ríkisstjórn að vinna yfirvinnu.“