Smitum fjölgar ört í bæði Danmörku og Noregi. Síðustu viku hafa ríflega 11 þúsund einstaklingar greinst með veirusmit í Danmörku og 248 verið lagðir inn á spítala en fjöldi innlagna þar í landi hefur ekki verið meiri frá því í febrúar.
Þá hefur NRK greint frá því að á síðasta sólarhring hafi greinst 1.335 kórónuveirusmit í Noregi. Fleiri smit hafa ekki greinst á einum degi frá 8. september.
Í Danmörku telja sérfræðingar að ráðlegt sé að grípa til aðgerða til að sporna við þessari þróun. Skynsamlegt sé að kórónuveirupassinn og grímur verði teknar aftur í notkun þar í landi.
Smitum hefur fjölgað ört í landinu síðustu daga á meðan aðsókn í bólusetningar hefur staðnað.
Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu, en sóttvarnanefnd stjórnvalda þar í landi fundaði í dag um stöðuna.
Eins og frægt er afléttu Danir öllum takmörkunum þann 10. september og var Covid-19 sjúkdómurinn ekki lengur skilgreindur sem ógn við danskt samfélag heldur sem sjúkdómur sem almennt telst hættulegur. Voru því ástæður ekki lengur taldar fyrir hendi sem réttlættu takmarkanir.
Greint var frá því um helgina að danska ríkisstjórnin hefði ákveðið að grípa aftur til hraðprófa og auka aðgengi að PCR-prófum eftir að smitum tók að fjölga.
NRK hefur eins og áður sagði greint frá því að á síðasta sólarhring hafi greinst 1.335 kórónuveirusmit í Noregi. Þau hafa ekki verið fleiri frá 8. september.
Undanfarna viku hefur meðaltal greindra smita verið 1.029 en í vikunni áður var meðaltalið 644.
Í gær voru 168 lagðir inn á sjúkrahús vegna veirunnar í Noregi. Þá hefur viðbúnaðarstig verið hækkað á St. Olavs sjúkrahúsinu í Þrándheimi og stöðunni verið lýst sem alvarlegri. Unnið er nú hörðum höndum að því að útskrifa sjúklinga til að reyna að létta á álaginu en að sögn Grethe Aasved, forstjóra spítalans, er stofnunin full af sjúklingum og er mikið álag á starfsfólki. Hefur þetta skapað krefjandi aðstæður þar sem að vegið er að öryggi sjúklinga.
Í umræðunni um framtíð sóttvarna á Íslandi hefur mikið borið á því undanfarnar vikur að Ísland þurfi að horfa til þeirra aðgerða sem eru við lýði í nágrannaríkjum okkar, þá sérstaklega Norðurlandanna þar sem þeim hefur að mestu verið aflétt.
Kom það meðal annars fram í minnisblaði Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrr í mánuðinum, þar sem fjallað var um möguleika Íslands á afléttingum.
„Íslensk stjórnvöld líta þar að auki til þess að öll hin Norðurlöndin hafa nú aflétt öllum innanlandstakmörkunum. Hafa stjórnvöld þar rökstutt ákvörðun sína með þeim rökum að ólíklegt sé að faraldur kórónaveiru í vel bólusettu samfélagi yrði alvarleg ógn við samfélagið í heild,” segir í minnisblaðinu.
Á sama tíma varaði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við því að horft yrði til Norðurlandanna, sérstaklega í ljósi þess að áhrif tilslakana væru enn að koma í ljós. Sagði hann þá að vísbendingar væru um að faraldurinn væri á uppleið í Danmörku.