Fjórir hafa látist í Færeyjum á þessu ári af völdum kórónuveirufaraldursins. Átta liggja nú á sjúkrahúsi af völdum covid-19. Færeysk stjórnvöld hafa boðað hertar sóttvarnaraðgerðir vegna faraldursins en 757 eru nú í einangrun vegna veirusmits, þar af greindust 83 í gær.
Fram kemur á vefnum portal.fo, að fyrsta dauðsfallið í Færeyjum af völdum covid-19 var 5. janúar á þessu ári. Það næsta var 31. júlí og í þessari viku hafa verð skráð tvö dauðsföll.
Færeyska landsstjórnin kynnti í dag hertar sóttvarnarreglur, sem eiga að gilda að minnsta kosti til 12. nóvember. Meðal annars er mælst til þess að fjölmennum viðburðum verði frestað, íþróttakappleikir mega fara fram en án áhorfenda, skólum á að loka ef smit kemur upp meðal nemenda eða kennara og börum verður lokað. Þá verða skimanir við landamærin hugsanlega teknar upp að nýju.