Greta Thunberg segir COP26 eitt stórt klúður

Greta Thunberg heldur ræðu á mótmælunum í dag.
Greta Thunberg heldur ræðu á mótmælunum í dag. AFP

Sænski umhverfisaðgerðasinninn og Greta Thunberg sagði COP26 loftslagsráðstefnuna vera ein stór mistök á fjölmennum mótmælum í Glasgow í dag. Á mótmælunum var kallað eftir auknum aðgerðum frá leiðtogum ríkjanna til að takast á við loftslagsvandann.

Thunberg sagði yfirlýsingar sumra þjóðarleiðtoga á ráðstefnunni sem snúa að minnkun útblásturs vera innantómt hjal. Ráðstefnan væri í raun „tveggja vikna fögnuður þess að viðhalda núverandi ástandi og bla bla bla,“ hefur AFP eftir Thunberg.

Hátíð grænþvottar

„Það er ekkert launungarmál að COP26 er klúður,“ sagði hún í ræðu sinni fyrir framan þúsundir mótmælenda og bætti hún við að þetta væri bersýnilega engin umhverfisráðstefna, þetta væri hnattræn „grænþvottar hátíð“.

Með grænþvotti er átt við að fyrirtæki og í þessu tilfelli ríki heimsins beiti misvísandi aðferðum til þess að láta líta út fyrir að raunverulegum árangri sé náð í umhverfismálum.

Ráðstefnuna sitja fulltrúar frá nærri 200 ríkjum og er markmið ráðstefnunnar að finna lausnir á því hvernig unnt sé að uppfylla markmið Parísarsáttmálans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert