Evrópa er enn á ný „þungamiðja“ kórónuveirufaraldursins, að sögn framkvæmdastjóra Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Smitum hefur fjölgað verulega í álfunni á síðustu dögum. Það rímar við stöðuna á Íslandi en hér greindust 144 smit á miðvikudag.
BBC greinir frá.
Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópudeildar WHO, segir að útlit sé fyrir að Evrópa muni þurfa að horfa upp á hálfa milljón dauðsfalla vegna Covid-19 til viðbótar áður en febrúarmánuður svo mikið sem gengur í garð. Þegar hafa 1,4 milljónir manna fallið frá vegna Covid-19. Kluge kenndi ónógri bólusetningu gegn Covid-19 um ástandið.
Þá segir Kluge að einnig megi kenna tilslökunum á sóttvarnaaðgerðum um uppgang faraldursins í Evrópu.
„Við verðum að breyta aðferðum okkar úr því að bregðast við smitbylgjum í það að koma í veg fyrir að þær eigi sér stað yfir höfuð,“ sagði Kluge.
Hægt hefur á þátttöku í bólusetningu gegn Covid-19 um alla Evrópu á síðustu mánuðum. Á meðan um 80% íbúa Spánar hafa þegar fengið fullabólusetningu er hlutfallið lægra í Frakklandi og Þýskalandi eða 68%. Hlutfallið í sumum Austur-Evrópulöndum er enn lægra. Þá voru einungis 32% Rússa fullbólusett í október síðastliðnum.
76% Íslendinga eru fullbólusettir en 89% þeirra sem hafa náð bólusetningaraldri, þ.e. 12 ára og eldri.
Maria Van Kerkhove, sérfræðingur í tæknimálum hjá WHO, segir að á síðustu fjórum vikum hafi kórónuveirutilvikum fjölgað um 55% þrátt fyrir mikið framboð á bóluefnum. Þá sagði kollegi hennar Mike Ryan að reynsla Evrópu væri „varúðarskot fyrir heiminn allan“.