Pólverjar segjast hafa komið veg fyrir að hundruð flóttamanna kæmust ólöglega til landsins frá Hvíta-Rússlandi í gær.
Evrópusambandið og bandarísk stjórnvöld hafa beðið stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi um að grípa inn í málið.
Atlantshafsbandalagið gagnrýndi hvítrússnesk stjórnvöld einnig og sakaði þau um að nota flóttamenn sem pólitísk peð, á meðan ESB kallaði eftir nýjum refsiaðgerðum gegn Hvít-Rússum.
ESB segir að Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hafi reynt að ýta undir för flóttamanna yfir landamærin í hefndarskyni vegna núverandi refsiaðgerða ESB gegn landinu, sem hefur verið sakað um mannréttindabrot.
Pólland, sem er aðili bæði að ESB og NATO, hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir afstöðu sína í flóttamannamálum undanfarin ár.
„Sveitum innanríkisráðuneytisins og hermönnum tókst að koma í veg fyrir fyrstu stóru tilraunina til að komast yfir landamærin,” sagði í tísti pólska varnarmálaráðuneytisins.
„Flóttamenn hafa komið upp búðum í Kuznica. Þar er fylgst náið með þeim af hvítrússneskum aðilum.”
Í myndskeiði frá pólskum landamæravörðum á Twitter sést til flóttamanna nota vírklippur til að komast í gegnum landamæragirðingu.
Margir flóttamannanna sem reyna að komast til Póllands eru á flótta undan fátækt í ríkjum Mið-Austurlanda. Þeir segja Hvít-Rússa ekki leyfa þeim að komast aftur til borgarinnar Minsk og fljúga heim á meðan Pólverjar leyfi þeim ekki að komast yfir landamærin og sækja um hæli.
Talsmaður pólsku ríkisstjórnarinnar, Piotr Muller, sagði blaðamönnum að 3.000 til 4.000 flóttamenn til viðbótar séu á leiðinni að landamærunum.
„Við reiknum með því að staðan við pólsku landmærin muni stigmagnast á næstunni þar sem vopn munu koma við sögu,” bætti hann við.